Actavis Group hefur í huga að færa sig inn á svið líftækni og hyggst hefja áreiðanleikakönnun á svissneska líftæknifyrirtækinu Biopartners. Ef af kaupunum verður eignast Actavis 51% hlut í Biopartners.

Dr. Claudio Albrecht, forstjóri Actavis, segir í tilkynningu um hugsanleg kaup félagsins að líftæknilyf séu tilvalin viðbót við krabbameinslyf Actavis. „Með því að færa sig inn á svið líftækni fá samheitalyfjafyrirtæki aðgang að vöruframboði sem krefst nýrrar nálgunar í þróun og markaðssetningu. Við munum í framtíðinni sjá samheitalyfjafyrirtæki fjárfesta mun meira í þróun og frumlyfjafyrirtæki þróa samheitalyf. Það eru aðeins stóru samheitalyfjafyrirtækin eins og Teva, Sandoz, Mylan og Actavis sem hafa bolmagn til að fara inn á þetta svið, annað hvort sjálf eða í samstarfi við frumlyfafyrirtæki.

Við viljum velja vandlega hvaða líftæknilyf við tökum inn í vöruframboð okkar.  Þróun lyfja við innkyrtlasjúkdómum er ein áhugaverðasta og mest mest vaxandi grein lyfjaiðnaðarins. Actavis býður nú breitt vöruúrval sykursýkislyfja í töfluformi, þannig að framboð insúlín lyfja og síðar insúlín hliðstæðu (insulin analog) er rökrétt fyrir Actavis og eitt af þeim sviðum sem við lítum til.

Actavis er í hópi leiðandi fyrirtækja í samheita-krabbameinslyfjum og með breitt vöruúrval. Líftæknilyf væru því tilvalin viðbót við vöruframboð okkar af krabbameinslyfjum."