Actavis hefur átt í viðræðum við stjórnendur kauphallarinnar í Zagreb en fyrirtækið er að skoða möguleika á því að skrá félagið í Króatíu, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Íslenska samheitalyfjafyrirtækið hefur gert 116 milljarða kauptilboð í króatíska keppinautinn Pliva og segja heimildarmenn Viðskiptablaðsins að hugsanleg skráning sé hluti af áætlunum Actavis um að taka yfir Pliva.

Pliva hefur hafnað kauptilboði Actavis og stjórnvöld og opinberar stofnanir í Króatíu, sem eiga 24% hlut í Pliva, hafa sagt að ekki komi til greina að selja eignarhlutinn.

Stjórnendur Actavis funda nú með stjórnendum Pliva og hafa óskað eftir viðræðum við króatísk stjórnvöld.