Actavis hefur lagt inn skráningu til bandaríska Matvæla- og lyfjaeftirlitsins (FDA) fyrir samheitalyf verkjalyfsins Avinza®. Í frétt félagsins kemur fram að talið er að Actavis sé fyrsta félagið til að leggja inn skráningarumsókn vegna lyfsins. Félagið véfengir einkaleyfi lyfjafyrirtækisins King Pharmaceuticals á lyfinu, sem rennur út árið 2017, og vonast til að lyfið verði sett á markað eftir þrjú ár.

Actavis lagði inn lyfjaskráningu fyrir lyfið í júní. Í vikunni sendi King frá sér tilkynningu þess efnis að fyrirtækið muni lögsækja Actavis á grundvelli einkaleyfis sem það telur Actavis brjóta. Stjórnendum Actavis kemur lögsóknin ekki á óvart, því nær algilt er í slíkum tilvikum að einkaleyfishafi höfði mál. Ekki hefur fengist staðfest að Actavis sé fyrsta félagið til að leggja inn skráninguna, en reynist það rétt þá fær félagið sex mánaða einkaleyfi á sölu lyfsins. Actavis hefur áður verið fyrst með skráningu lyfja í Bandaríkjunum. Til að mynda fékk félagið sex mánaða einkaleyfi árið 2005 á lyfinu Gabapentin, sem hefur verið söluhæsta lyf félagsins, og síðar á Ranitidine í mars á þessu ári.

Avinza® seldist fyrir um 170 milljónir Bandaríkjadala (11 milljarða króna) á 12 mánaða tímabili sem lýkur í júní 2007, skv. upplýsingum frá IMS Health data. Tekjur Actavis í Bandaríkjunum á fyrri hluta ársins 2007 námu um 205 milljónum evra (18,4 milljörðum króna), sem samsvarar um þriðjungi af tekjum samstæðunnar.