Actavis er ekki að baki dottið þó að áform þess um að kaupa króatíska lyfjafyrirtækið Pliva hafi ekki gengið upp.

Þegar Actavis kynnti níu mánaða uppgjör sitt fyrr í nóvember tilkynnti Róbert Wessmann, forstjóri félagsins, að Actavis væri að skoða ýmsa fjárfestingamöguleika um þessar mundir og að félagið stefndi á að ljúka tveimur yfirtökum strax fyrir lok þessa árs.

Halldór Kristmannsson, talsmaður Actavis, staðfesti í samtali við Viðskiptablaðið að enn stæði til að ljúka þessum yfirtökum fyrir áramót en vildi ekki gefa upp hvaða félög væri um að ræða né á hvaða stigi þær væru.

"Við höfum almennt sagt að við séum helst að skoða minni og meðalstór fyrirtæki enda liggur áhersla okkar þar um þessar mundir. Þessar tvær yfirtökur sem eru í burðarliðnum verða því ekkert í líkindum við Pliva að umfangi og stærð heldur verða þetta félög í minni kantinum," segir hann.

Halldór er þögull sem gröfin þegar hann er spurður nánar út í starfsemi eða staðsetningu þessara tveggja félaga en segir þó að Actavis hafi áhuga að að styrkja sig á mörkuðum í Mið- og Austur Evrópu sem og í Suðu-Evrópu.

"Við teljum að þessir markaðir komi til með að vaxa hratt á næstu árum og þar viljum við styrkja stöðu okkar til skemmri tíma litið. Til lengri tíma litið erum við að horfa mun lengra og horfum alla leið til Suður-Ameríku, Japans, Kína og Kanada," segir Halldór.



Nánar í Viðskiptablaðinu í dag