Bandaríska lyfjafyrirtækið Barr Pharmaceuticals hefur tryggt sér 96% af hlutafé króatíska lyfjafyrirtækisins Pliva, samkvæmt upplýsingum frá fjárvörsluskrifstofu Króatíu (e. Croatian Central Depositary Agency), og má gera ráð fyrir að íslenska samheitalyfjafyrirtækið Actavis hafi samþykkt að selja um 20% hlut sinn í Pliva.

Actavis og Barr börðust um að fá að kaupa Pliva og hafði Barr betur, en félagið bauð 820 króatískar í kúnur í Pliva á móti 795 kúnu tilboði frá Actavis. Íslenska fyrirtækið ákvað að hækka ekki tilboð sitt í Pliva og lítur nú út fyrir að Barr kaupi félagið fyrir 171,5 milljarða króna.

Halldór Kristmannsson, talsmaður Actavis, sagðist ekki geta tjáð sig um hvort að fyrirtækið hafi ákveðið að selja hlut sinn í Pliva, en félagið tryggði sér um 20% hlut í miðju söluferlinu til að styrkja stöðu sína. Kauptilboð Barr er um 16 sinnum hagnaður Pliva fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) og er mun hærra en gengi hlutabréfa félagsins á þeim tíma þegar Actavis tók stöðu í Pliva.

Í ágúst hafði gengi hlutabréfa Pliva hækkað um 61% frá því í mars, þegar Actavis gerði óvænt tilraun til að kaupa Pliva fyrir 570 króatískar kúnur á hlut. Ekki er nákvæmlega vitað hve mikið Actavis greiddi fyrir hlutabréf og kauprétti í Pliva til að tryggja sér um 20% hlut í félaginu, en sérfræðingar telja að verulegur söluhagnaður hafi myndast. Hins vegar benda sérfræðingar á að kostnaður við áreiðanleikakönnun, lögfræðikostnaður og kostnaður greiddur til banka fyrir að fjármagna yfirtökulán Actavis hafi verið töluverður, sem muni leiða til þess að söluhagnaðurinn af hlutabréfaeign Actavis í Pliva verði takmarkaður.

Sérfræðingar segja það ákveðið bakslag fyrir Actavis að hafa ekki tekist að kaupa Pliva en Róbert Wessman, forstjóri Actavis, segist búast við aukinni samþjöppun á samheitalyfjamarkaði. Halldór sagði í samtali við Viðskiptablaðið í gær að Actavis væri að skoða á bilinu 10-20 fyrirtæki og að Actavis hafi sérstakan áhuga á fyrirtækum í Frakklandi og á Ítalíu. Hann tók fram að mikilvægt væri fyrir Actavis að vera á meðal fimm stærstu fyrirtækja á lykilmörkuðum Actavis. Halldór sagði markmið Actavis enn vera að verða eitt af þremur stærstu samheitalyfjafyrirtækjum heims, en að fyrirtækið hafi nú áhuga á að kaupa mörg minni fyrirtæki til að ná markmiði sínu.

Actavis hefur verið orðað við slóvenska samheitalyfjafyrirtækið Krka en Halldór sagðist ekki geta tjáð sig um hvaða fyrirtæki félagið væri að skoða. Greiningaraðilar hafa einnig nefnt pólska fyrirtækið Bioton og litháíska fyrirtækið Sanitas sem hugsanleg skotmörk Actavis.