Actavis hefur gengið frá sambankaláni að upphæð 77,7 milljarða króna. Alþjóðlegi bankinn UBS Limited leiddi lántökuna ásamt ABN Amro, Bank of America, BNP Paribas, HSBC og WestLB. Mikil umframeftirspurn var eftir sambankaláni félagsins og var ákveðið að skera niður þátttöku bankanna, segir í tilkynningu félagsins.

Lánið verður notað til þess að fjármagna kaup Actavis á samheitalyfjastarfsemi Alpharma Inc. sem gengið var frá í desember 2005 að upphæð 49,5 milljarða króna. Einnig nýtist lánið til endurfjármögnunar á eldra sambankaláni frá því í júní 2005, sem tekið var í tengslum við kaup félagsins á Amide Pharmaceuticals Inc.

Alls nemur fjármögnunin 1,7 milljörðum bandaríkjadala eða um 105 milljörðum króna og er sambankalánið það stærsta sem veitt hefur verið til íslensks fyrirtækis. Nýja sambankalánið er tekið á 90 punktum yfir LIBOR en það fyrra var tekið á 70 punktum.

Til viðbótar við sambankalánið hafa Íslandsbanki hf. og Landsbanki Íslands hf. tryggt félaginu að jafnvirði 425 milljónir dala með kaupum á forgangsréttarhlutabréfum og er þetta í fyrsta skipti á Íslandi sem sú leið er farin á Íslandi.

Eftir kaupin á Alpharma Inc. er Actavis Group orðið fjórða stærsta samheitalyfjafyrirtæki í heimi.