Sigurður Óli Ólafsson, nýr forstjóri Actavis, segir að stefnt sé að því að fyrirtækið verði stærsta samheitalyfjafyrirtæki heims. Það er nú fimmta stærsta fyrirtækið. Þetta kom fram í máli forstjórans nýja á blaðamannafundi sem haldinn var rétt í þessu.

Tilkynnt var formlega um forstjórabreytingarnar á fundinum. Þar sagði Björgólfur Thor Björgólfsson, aðaleigandi Actavis, að þeir ætluðu sér áfram stóra hluti. Hann þakkaði fráfarandi forstjóra Róberti Wesman enn fremur góð störf í þágu fyrirtækisins. Þá kvaðst hann vera viss um að Sigurður Óli myndi reynast góður forstjóri.

Sigurður Óli gerði samdráttinn í efnahagslífinu meðal annars að umtalsefni. Hann sagði að hagnaður Actavis af kreppunni væri miklu meiri en tapið því fólk skipti í slíkum aðstæðum út frumlyfjum fyrir samheitalyf, sem væru ódýrari.