Hagnaður Actavis eftir skatta á fyrsta ársfjórðungi 2005 nam 11,1 m.evra en spá Greiningardeildar Landsbankans hljóðaði upp á 16,9 m.evra. Afkoma félagsins er undir væntingum greiningardeildar en bæði rekstrartekjur og framlegð sem hlutfall af veltu (EBITDA, %) var undir þeirra spá.

Rekstrartekjur félagsins voru um 102 m.evra á fjórðungnum og EBITDA 24,6 m.evra sem er 24,1% af veltu. Í spá Landsbankans var reiknað með 111 m.evra í tekjur og 25,8% EBITDA framlegð. Gjaldfærður tekjuskattur nam aðeins 0,6 m.evra þar sem virkt skatthlutfall var mjög lágt eða 5,0%. Lækkar skatturinn vegna eignfærslu á tekjuskatti á Möltu að fjárhæð 1,2 m.evra á fjórðungnum.

Actavis birti rétt fyrir lokun markaða en strax í kjölfar birtingarinnar tóku bréf félagsins að lækka og nam lækkunin innan dagsins 4,25%.