Actavis hefur fengið afhenta viðurkenningu sem fyrirmyndarfyrirtæki í vinnuvernd. Viðurkenningin var veitt vinnustöðum sem gert hafa gott áhættumat sem skilað hefur öruggari og betri vinnuaðstæðum fyrir starfsfólkið. Verðlaunin voru afhent á ráðstefnu á Grand Hóteli þriðjudaginn 21. október, í tengslum við vinnuverndarvikuna 2008. Yfirskrift vikunnar var „Bætt vinnuumhverfi, betra líf, áhættumat og forvarnir eru leiðin.“

Við tilnefningar var skoðað hvort fyrirtæki hefði gert áhættumat fyrir alla þætti vinnunnar þ.e. umhverfisþætti, vélar og tæki, efnanotkun, hreyfi- og stoðkerfi, og félagslega og andlega þætti; hvort gerð hafi verið áætlun um forvarnir og heilsuvernd byggt á niðurstöðum áhættumatsins; og hvort öryggistrúnaðarmenn og öryggisverðir hafi fengið lögboðna fræðslu.

Auk Actavis voru það fyrirtækin Landsvirkjun Blöndustöð, Héraðsverk Egilsstöðum, Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, og leikskólarnir Eyrarskjól og Sólborg á Ísafirði sem fengu viðurkenningu.

„Stefna Actavis og framtíðarsýn er skýr. Í vinnuvernd miðar hún að því að sérhverjum starfsmanni líði vel og að hann fari heill heim úr vinnu. Stjórnendur og starfsmenn fyrirtækisins hafa þetta að leiðarljósi í störfum sínum og það er ánægjulegt að sjá að Vinnueftirlitið hafi tekið eftir því góða starfi sem hefur verið unnið hér í þessum efnum,“ segir Jón Gunnar Jónsson, framkvæmdastjóri Actavis á Íslandi.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Actavis.