Actavis hlaut IR Nordic Awards 2007 fyrir bestu fjárfestatengsl stórra fyrirtækja á Íslandi. Það er fagtímaritið IR Magazine sem veitir verðlaunin, en verðlaunaathöfnin var haldin í Osló að þessu sinni. Actavis vann einnig til þessara sömu verðlauna árið 2004.

IR Magazine hefur á undanförnum árum veitt félögum á Norðurlöndum verðlaun fyrir bestu fjárfestatengslin. Verðlaunin byggjast á meðal annars á viðtölum við yfir 200 fjárfesta, greiningardeildir og aðra markaðsaðila um hverjir skara fram úr í upplýsingagjöf og samskiptum við markaðinn.

?Síðastliðið ár hefur verið sérstaklega viðburðarríkt hjá Actavis. Við höfum tekið þátt í tveimur af stærstu yfirtökuferlum í okkar iðnaði og lukum við fjögur fyrirtækjakaup á síðasta ári. Þá vorum við fyrsta íslenska fyrirtækið til að fá erlendar greiningar frá stóru alþjóðlegu bönkunum og í dag eru fjórir erlendir aðilar sem greina félagið. Á tímum mikilla breytinga er mikilvægt að fjárfestar hafi góðan skilning á hvert félagið stefnir og hvernig mæla má árangur þess. Verðlaunin eru góð viðurkenning á þeirri vinnu," segir Halldór Kristmannsson, framkvæmdastjóri Innri og ytri samskipta um verðlaunin í tilkynningu félagsins.