Fjármálaeftirlit Króatíu hefur krafist þess að Actavis leggi fram beiðni um að gera formlegt tilboð í króatíska samheitalyfjafyrirtækið Pliva.

Róbert Wessman, forstjóri Actavis, sagði í samtali við Viðskiptablaðið að fyrirtækið myndi leggja fram beiðnina í dag.

En Actavis hefur möguleika á því að hækka formlegt tilboð sitt eftir að beiðnin er lögð fram, segir Róbert, en ekki er leyfilegt að kaupa hlutabréf á markaði í Pliva eftir að beiðninni hefur verið skilað inn.

Actavis hefur tryggt sér 20,4% hlut í Pliva, en fyrirtækið hefur gert óformlegt tilboð í króatíska félagið að virði 723 króatískar kúnur á hlut, auk 12 kúnu arðgreiðslu. Íslenska fyrirtækið keppir nú við bandaríska fyritækið Barr Pharmaceuticals um að kaupa Pliva, sem hefur mælt með tilboði Barr.

Barr hefur gert formlegt kauptilboð í Pliva að virði 743 kúnur á hlut, sem samsvarar um 173 milljörðum króna. Sérfræðingar búast við því að Actavis muni hækka kauptilboð sitt enn frekar og benda á að fyrirtækið sé í góðri stöðu til að vinna slaginn þar sem einungis 60% af hlutafé Pliva er til sölu. Stjórnvöld í Króatíu eiga um 20% í Pliva og hafa sagt að hluturinn sé ekki til sölu. Barr hefur ekki leyfi til þess að kaupa hlutabréf í félaginu á opnum markaði.