Vonir standa til að unnt verði að opna verksmiðju Actavis í New Jersey í Bandaríkjunum aftur um næstu áramót. Framleiðsla hefur leggið niðri í verksmiðjunni síðan í ágúst síðastliðnum í kjölfar athugasemda bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitsins (FDA). Að sögn Hjördísar Árnadóttur, talsmanns Actavis, er samningaferli í gangi við FDA svo hægt sé að hafja framleiðslu í verksmiðjunni.

,,Við teljum okkur hafa gert okkar ítrasta með því að innkalla öll lyf sem framleidd voru í verksmiðjunni. Um leið hafa allir vinnuferlar verið endurskoðaðir og sömuleiðis gæðamál sem við teljum að standist fyllilega eigin kröfur fyrirtækisins, og kröfur FDA,“ sagði Hjördís.

Actavis efur óskað eftir því að FDA geri úttekt á verksmiðjunni en eftirlitið hefur ekki sagt hvenær það getur orðið.

Hjördís benti á að allt annað lagaumhverfi væri þarna við að glíma, FDA hefði þannig farið fram á lögbann á verksmiðjuna en Hjördís segir að það sé skref i því samningsferli sem nú fari fram á milli Actavis og FDA. Eins og áður segir hefur framleiðsla legið niðri síðan í ágúst. Hjördís tók fram að Actavis hefði gert það að eigin frumkvæði að innkalla lyfin. Málið hófst með því að í vor kom í ljós tafla sem ekki stóðst gæða eftirlit.

Verksmiðjan í New Jersey er ein fimm verksmiðja Actavis í Bandaríkjunum.  Félagið rekur alls 22 lyfjaverksmiðjur út um allan heim.