Actis hefur tvöfaldað hlut sinn í Creditinfo Group frá 10% í 20%. Félagið stýrði fyrir 10% hlut í gegn um fjárfestingu sína í Credit Services Holdings ásamt fleiri fjárfestum. Actis er leiðandi fjárfestir í Asíu, Afríku og Rómönsku-Ameríku á sviði áhættustýringar, miðlunar fjárhagsupplýsinga og stafrænna lausna.

Creditinfo Group er nú með starfsstöðvar í yfir 30 löndum og viðskiptavini í 45 löndum. Fjárfestingin fer í að fjármagna alþjóðlegan vöxt og vöruþróun segir í fréttatilkynningu frá félaginu. Með þessari fjárfestingu tekur Ali Mazanderani, meðeigandi hjá Actis sæti í stjórn félagsins.

Sigrún Ragna Ólafsdóttir tekur jafnframt sæti í stjórn félagsins á ný en hún situr einnig í stjórn Creditinfo Lánstraust hf. á Íslandi. Fyrir eru í stjórn Creditinfo Group þau Reynir Grétarsson stjórnarformaður, Nora Kerppola og Hákon Stefánsson.

Hyggjast fjölga starfstöðvum enn frekar

Creditinfo Group hefur opnað yfir 30 starfsstöðvar í fjórum heimsálfum frá stofnun þess árið 1997. Fyrirtækið hefur með starfsemi stutt við vöxt og viðgang efnahagskerfa fjölda landa.

Fjárfestingin styður við áframhaldandi vöxt Creditinfo Group, með fjölgun starfsstöðva, auknu vöruúrvali þar sem fyrirtækið er þegar með starfsemi og leit að frekari tækifærum til vaxtar á nýjum mörkuðum, þar með talið í Afríku, Norður- og Suður-Ameríku og Asíu.

„Fjárfesting Actis í Creditinfo kemur til að með efla starfsemi félagsins og viðskiptaáætlanir fyrirtækisins á alþjóðavísu,“ segir Reynir Grétarsson, stjórnarformaður, stofnandi og meirihlutaeigandi Creditinfo Group.

„Við höldum áfram að útvíkka á mörkuðum þar sem tækni okkar og lausnir suðla að uppbyggingu fjármálamarkaða. Við munum vinna áfram í nánu samstarfi við Actis og hlökkum til frekari vaxtar með samstarfsaðila sem deilir gildum okkar og markmiðum.“

Ali Mazanderani , meðeigandi hjá Actis, sem taka mun sæti í stjórn Creditinfo Group segir aukna og áframhaldandi samvinnu við Creditinfo vera ánægjulega. „Við erum þess fullviss að við styðjum hér við framúrskarandi teymi sem deilir með okkur sýn á framhaldið og hlökkum til verkefnanna framundan.“

Sigrún Ragna Ólafsdóttir , nýr stjórnarmeðlimur í Creditinfo Group: „Það er spennandi að takast á við þessi verkefni á tímum mikillar tækniþróunar en Creditinfo Group leggur mikið upp úr nýsköpun og fjármálalausnum. Félagið er í örum vexti og er orðið leiðandi á sviði áhættustýringar og miðlunar fjármálaupplýsinga á mikilvægum vaxtarmörkuðum.“

Um Ali Mazanderani:

Ali Mazanderani hefur starfað sem framkvæmdastjóri hjá Actis frá árinu 2010 og hefur unnið við það að byggja upp ráðgjafa- og fjármálaþjónustu fyrir fjármálafyrirtæki. Ali starfar hjá Actis í London og hefur komið að alþjóðaviðskiptum í yfir 60 löndum og vaxtarmörkuðum m.a. í tengslum við EMPH, PayCorp, Upstream, Compuscan, DLP Payments, and GHL Systems.

Áður en hann hóf störf hjá Actis starfaði við stefnumótun hjá First National Bank í Jóhannesarborg og hjá OC & C Strategy Consultants í London.  Ali hefur setið í stjórnum fjölda fyrirtækja meðal annars, Upstream Systems, Compuscan, PayCorp Investments, and DLP Payments.

Ali er með BS í hagfræði frá University of Pretoria og meistaragráðu í hagfræði frá Oxford-háskóla, enn fremur er hann með  meistaragráðu í efnahagssögu frá London School of Economics, og MBA gráðu frá INSEAD, (Institut Européen d'Administration des Affaires).

Um Sigrúnu Rögnu Ólafsdóttur:

Sigrún Ragna hefur setið í stjórn Creditinfo Lánstrausts hf. frá 2017. Sigrún Ragna var forstjóri VÍS á árunum 2011-2016. Áður starfaði hún sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs Íslandsbanka og þar á undan hjá Deloitte þar sem hún var meðeigandi.

Sigrún Ragna hefur setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja í ólíkum geirum. Sigrún Ragna er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og löggiltur endurskoðandi. Sigrún Ragna útskrifaðist með MBA próf frá Háskólanum í Reykjavík árið 2007.

Um Creditinfo Group:

Creditinfo Group var stofnað á Íslandi árið 1997 vöxtur þess hefur verið hraður og starfar félagið nú í 32 löndum og á í viðskiptum við félög í 45 löndum víðsvegar um heim. Félagið er sagt leiðandi á heimsvísu á sviði áhættustýringar og miðlun fjárhagsupplýsinga í tilkynningunni.

Félagið hefur að geyma lánshæfis upplýsingar ríflega 200 milljón einstaklinga og 2 milljónir fyrirtækja í 32 löndum um allan heim. Creditinfo Group hefur þróað fjölda lausna til að auðvelda ákvörðunartöku í viðskiptum. Félagið hefur í samstarfi við alþjóðastofnanir, fjármálafyrirtæki og seðlabanka markað sterka markaðsstöðu í Afríku, Balkanlöndunum og í Austur Evrópu.

Hröð uppbygging félagsins hefur falist í því að hefja starfsemi á jaðarmörkuðum þar sem fjárhags- og viðskiptaupplýsingar eru að skornum skammti og því erfitt að meta lánshæfi aðila í viðskiptum.

Markmiðið er að auka fjárhagslega þátttöku minni og meðalstórra fyrirtækja og einstaklinga og skapa þannig aukinn hagvöxt á hverju svæði fyrir sig. Meðal samstarfsaðila Creditinfo er Alþjóðabankinn, IFC, Millennium Challenge Corporation, og fleiri alþjóðastofnanir.