Magnús Harðarson tók við sem forstjóri Kauphallarinnar um miðjan október síðastliðinn af bróður sínum, Páli Harðarsyni, sem hafði gegnt starfinu frá 2011. Sama ár hafði Magnús tekið við sem aðstoðarforstjóri og staðgengill forstjóra, og hafði því starfað náið með bróður sínum og var öllum hnútum kunnugur þegar hann tók við forstjórastarfinu.

„Þetta er svolítið fyndið, að taka við nýju starfi hjá Kauphöllinni, en hafa samt verið hér síðan 2002. Þrátt fyrir að hafa unnið hér lengi og staðið stjórn og forstjóra nærri í langan tíma vekur svona breyting mann alltaf til umhugsunar. Segja má að starf Páls, og á undan honum Þórðar [Friðjónssonar, fyrrum forstjóra], hafi verið að byggja grunninn upp á nýtt frá hruni,“ segir Magnús, en báðum hafi þeim tekist vel til við það. „Ég kem inn á þeim stað núna að grunnurinn er kominn, en það gefur mér ákveðin tækifæri sem þeir höfðu ekki.“

Tímabært að taka flugið
Líkja megi stöðu Kauphallarinnar í dag við flugvél sem komin er að enda flugbrautarinnar. „Það vill bara svo til að ég kem inn á þeim tímapunkti þar sem tímabært er orðið að taka flugið. Annars endar maður bara útí sjó.“

Hann sér því ekki fyrir sér hóflegan vöxt hjá Kauphöllinni á næstu misserum. Annaðhvort verði góður vöxtur, með tilheyrandi þjónustuaukningu fyrir viðskiptavini og aukinni skilvirkni verðbréfamarkaðarins, eða hreinlega afturför. „Ef við náum ekki ákveðnum grundvallaratriðum í gegn, ef okkur tekst ekki að laða að mun stærra mengi fjárfesta, þá náum við einfaldlega ekki að þjónusta okkar viðskiptavini nógu vel og styðja þannig við þeirra áætlanir og markmið. Þá er auðvitað hætt við að markaðurinn drabbist niður, með tilheyrandi afleiðingum fyrir íslenskt efnahagslíf. Ég held að valið sé á milli þessara kosta.“

Fleiri fjárfestar bæti verðmyndun
Ein helsta áhersla Magnúsar er að fá fleiri fjárfesta á markaðinn, bæði innlenda og erlenda. „Það sem hefur vantað á íslenska markaðinn er þessi massi. Þessi fjöldi lítilla eininga sem saman myndar eina stóra heild. Þetta snýr náttúrulega allt að því að fá fjölbreyttari skoðanir inn á markaðinn og bæta þannig verðmyndun,“ segir hann, og útskýrir að í núverandi ástandi felist ákveðinn vítahringur, þar sem fæð fjárfesta hafi tilhneigingu til að ýta undir verðsveiflur, sem aftur fæli frá tilvonandi fjárfesta.

„Ég ætla auðvitað ekki að halda því fram að á fullkomnum markaði væru engar sveiflur, en það gæti dregið úr þeim, þannig að sveiflurnar byggi í meira mæli á raunverulegum undirliggjandi þáttum. Verðmyndun gæti þannig orðið yfirvegaðari, ef svo má að orði komast, og endurspeglað heildstæðari og breiðari sýn markaðsaðila, og samfélagsins alls, á gengi og framtíðarhorfur skráðra fyrirtækja.“

Nánar er rætt við Magnús í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem er nýkomið út. Hægt er að kaupa eintak hér .