Stærstur eignarhluti Stoða í Tryggingamiðstöðinni, TM, verður boðinn út í almennu hlutafjárútboði dagana 22. til 24. apríl næstkomandi. Stoðir eiga alls 33,6% hlut og mun í útboðinu selja 28,6% af heildarhlutafé í TM. Útboðinu verður háttað þannig að allir hlutir verða seldir á sama útboðsgengi. Útboðið skiptist í tvo hluta, annars vegar áskriftarhluta þar hámarkskaupverð er 50 milljónir króna og hins vegar tilboðshluta fyrir hærri fjárhæðir. Útboðsgengi er lægst 17,75 krónur á hlut og hæst 20,1 króna. Miðað við það er heildarvirði félagsins á bilinu 13,5 til 15,3 milljarðar króna. Virði þess hlutar sem er til sölu er á bilinu 3,8 milljarðar til 4,4 milljarðar króna.

Forsvarsmenn TM og útboðsins hafa síðustu vikuna fundað með fjárfestum og munu halda því áfram næstu daga. Sigurður segir kynningarferlið hafa gengið vel en stefnt er að útgáfu útboðslýsingar fyrir vikulok. „Við erum að kynna félagið og þann árangur sem hefur náðst. Við skýrum framtíðarsýnina og ákváðum að birta áætlun fyrir þetta ár. Við höfum uppfært arðgreiðslustefnu sem segir að TM ætli að greiða að lágmarki 50% af hagnaði eftir skatta í arð. Við verðum því arðgreiðslufélag,“ segir Sigurður og bætir við að tryggingamarkaðurinn hérlendis sé ekki mikill vaxtamarkaður. Því sé eðlilegt að greiða arð til hluthafa.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.