*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Innlent 15. febrúar 2019 19:35

Fór að leiðast veðjandi vitleysingar

Sigurgeir Jónsson ákvað í kjölfar hrunsins að segja skilið við bankakerfið og finna sér nýjan starfsvettvang.

Júlíus Þór Halldórsson
„Ég hafði hins vegar endað í þeim hluta þar sem voru í raun bara vitleysingar að veðja. Þetta var svolítið eins og að reka spilavíti,“ segir Sigurgeir Jónsson um störf sín í bankakerfinu fyrir hrun.
Haraldur Guðjónsson

Þegar Sigurgeir Jónsson hóf störf hjá Kaupþingi var það aðeins um 35 manna verðbréfafyrirtæki, en eins og vart þarf að rekja hér átti það eftir að stækka ansi ört næstu árin. Hann leiddi afleiðuviðskiptadeild fyrirtækisins í gegnum þann mikla vöxt, og deildin skilaði góðum hagnaði. Sá árangur dugði honum þó skammt og fljótt fór ævintýraþráin að segja til sín. „Ég er hjá Kaupþingi til 2004, en þá ákveð ég að láta slag standa og prófa að fara út í heim. Maður var búinn að vera lengi á Íslandi og hélt sig kunna allt, en maður vissi samt alltaf að það átti eftir að láta reyna á það erlendis. Ég hafði sérstakan áhuga á „structured credit“, sem var í raun svið sem var enginn markaður með hér á landi. Ég hélt það væru algerir snillingar sem gætu stundað viðskipti með M sinnum M fylgnifylki í rauntíma, og vildi endilega læra sem mest af þeim.“

Frá góðærinu til hins stóra eplis
Sigurgeir ákvað því að freista gæfunnar í Mekka hins alþjóðlega fjármálakerfis: Wall Street. „Ég fæ svar frá Citibank, Goldman Sachs og Bank of America, og tók Bank of America starfið, enda fannst mér sá sem var yfirmaður minn þar alveg einstaklega gáfaður maður, og ég vildi læra. Ég fer þarna inn á þetta svið með lítið annað en afleiðubakgrunninn. Átján mánuðum síðar er ég orðinn yfirmaður „synthetic credit“ fyrir Norður-Ameríku hjá bankanum. Deildin mín endaði árið 2007 með tugmilljóna dollara hagnað. Systurdeildin í Evrópu hafði hins vegar tapað heldur margfalt hærri upphæð, og það rann upp fyrir mönnum þarna í árslok að þessi starfsemi átti sér enga framtíð.“

Hann var því kominn í þá stöðu í annað sinn á skömmum tíma að leita sér að nýjum starfsvettvangi eftir að hafa verið framkvæmdastjóri hjá virtum banka með góðum árangri, en var ekki tilbúinn til að segja skilið við bankakerfið. „Ég reri því á önnur mið og tók við starfi hjá Glitni fram að hruni og hjálpaði þar við skammtímafjármögnun. Okkur gekk mjög vel í þeim verkefnum sem við tókum okkur fyrir hendur þar, en vandamál bankans og bankakerfisins voru mun stærri en það sem við vorum að fást við á skammtímahliðinni,“ segir Sigurgeir, en þó að hann hafi stoppað stutt hjá bankanum horfir hann hlýlega til tímabilsins í baksýnisspeglinum og segir það eitt það skemmtilegasta á sínum ferli. „Það voru allir að reyna sitt besta og vinna eins mikið og kostur var. Ég hef aldrei unnið með jafnmiklu fagfólki. Vissulega átti sér eitthvað misjafnt stað í bankakerfinu. Hins vegar voru flestir innan kerfisins ekki tengdir neinu misjöfnu, heldur hreinlega sváfu ekki til að reyna að redda hlutunum. Það var einstakt að vinna með þessu fólki.“

Þegar hér var við sögu komið var Sigurgeir loks farinn að hugsa sér til hreyfings, og hafði að eigin sögn velt því fyrir sér í þónokkurn tíma hvernig lífið væri utan bankakerfisins. Þrátt fyrir mikla velgengni á flesta mælikvarða í heimi fjármálastofnana var honum farið að þykja viðfangsefnin skilja lítið eftir sig. „Ég var farinn sjá fyrir mér að vera spurður í lok starfsferilsins hvað ég hefði gert, og geta engu öðru svarað en að hafa stundað afleiðuviðskipti. Afleiðuviðskipti geta verið mjög virðisaukandi, sé rétt að þeim staðið, sér í lagi þegar þau hjálpa við að draga úr og stýra áhættu. Ég hafði hins vegar endað í þeim hluta þar sem voru í raun bara vitleysingar að veðja. Þetta var svolítið eins og að reka spilavíti.“

Nánar er rætt við Sigurgeir í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.