Um mitt sumar 2015 setti Nýherji 25% hlut í Tempo í lokað söluferli en niðurstaðan var sú að fjöldi aðila, bæði innlendir og erlendir, lýsti yfir áhuga á að eignast meirihluta í Tempo. Stjórn Nýherja setti þau söluáform á ís, því sala á meirihluta í Tempo var ekki það sem lagt var upp með.

Spurður hvort salan sé komin aftur á dagskrá segir Finnur Oddsson, forstjóri Nýherja svo ekki vera:

„Markmiðið með því að selja minnihluta var tvíþætt. Annars vegar að sækja fjármagn til að styrkja eiginfjárstöðu Nýherja og standa undir mögulegum viðbótarþróunarkostnaði hjá Tempo. Hins vegar stefndum við að því að komast í samstarf við aðila sem gætu hjálpað okkur við þróun á Tempo, sérstaklega í tengslum við skölun á sölu og alþjóðlegu markaðsstarfi og þjónustuinnviðum. Það sem kemur hins vegar í ljós í söluferlinu er að þeir sem við teljum vera heppilegustu samstarfsaðilana til að koma með þekkingu sem okkur skortir eru einmitt þeir sem frekar kjósa að fjárfesta í meirihluta frekar en minni.

Svolítið eins og að ætla að renna fyrir silungi, með tilheyrandi léttum veiðigræjum, en sjá svo að áhugaverðustu fiskarnir eru mun stærri, laxar. Það er betra að fara í slíka veiði með réttar græjur og öflugri. Svo við klárum samlíkinguna, þá vorum við ekki búin að undirbúa okkur fyrir sölu á meirihluta í Tempo. Við þurfum því að ljúka ákveðnum áföngum, útbúa okkur rétt, áður en við förum í annan veiðitúr.“

Finnur bætir því að ekkert liggi á, en vel heppnað hlutafjárútboð í desember uppfyllti að hluta þau fjárhagslegu markmið sem lagt var upp með í sölu á minnihluta í Tempo.

Ítarlegt viðtal við Finn má finna í Viðskiptablaðinu sem kom út á fimmtudaginn. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Innskráning.