Stjórn Skeljungs hefur ákveðið að hefja einkaviðræður við Sp/f Orkufelagið, félag undir forystu Ben Arabo, Teitur Poulsen og Tommy Næs Djurhuus, um sölu á öllu hlutafé færeyska dótturfélagsins P/F Magn á grundvelli fyrirliggjandi kauptilboðs. Gert er ráð fyrir að sölunni ljúki í nóvember næstkomandi, samkvæmt tilkynningu Skeljungs til Kauphallarinnar

Fram kemur að leiði viðræður til sölu, þá mun vænt heildarsöluverð nema 12,3 milljörðum króna en frá því dragast yfirteknar skuldir, kostnaður við söluna og aðrar leiðréttingar úr fjárhag. Söluverð hlutafjárins myndi nema um 10 milljörðum króna að teknu tilliti til framangreinds og er það 6,2 milljörðum króna hærra en bókfært verð eignarhlutarins.

Nettó vaxtaberandi skuldir Skeljungs myndu lækka um 2,1 milljarða og handbært fé hækka um 10 milljarða króna við söluna.

Skeljungur tilkynnti í lok mars að stjórn félagsins hefði tekið ákvörðun um að meta framtíðarkosti eignarhalds á P/F Magn. Þann 19. maí óskaði félagið svo eftir óskuldbindandi tilboðum í færeyska dótturfélagið.

P/F Magn rekur 11 smásölu- og bensínstöðvar víðs vegar um Færeyjar auk þess að reka tvær birgðastöðvar og dreifa eldsneyti til fyrirtækja, verktaka og sjávarútvegs.

Heildartekjur Magn á fyrri helmingi ársins námu 8.627 milljónum króna, eða um 38% af tekjum Skeljungs samstæðunnar. EBITDA hagnaður P/F Magn á fyrstu sex mánuðum ársins nam 929 milljónum króna, samanborið við 1.584 milljóna EBITDA hagnaðs samstæðunnar.