*

sunnudagur, 5. desember 2021
Innlent 15. mars 2021 11:25

„Að sjálfsögðu“ verður mál Samherja kannað

Yfirmaður færeyska skattsins segir í stöðuuppfærslu á Facebook að tilkynning Samherja frá því fyrir helgi sé á misskilningi byggð.

Jóhann Óli Eiðsson
Frá Þórshöfn, höfuðstað Færeyja.
Aðsend mynd

Mál Samherja í Færeyjum verður „að sjálfsögðu“ kannað af færeyska skattinum Taks. Fullyrðingar um annað eru byggðar á misskilningi. Þetta segir Eyðun Mørkøre, stjórnandi hjá Taks, í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni. Færeyska Kringvarpið segir frá.

Fjallað var um starfsemi þriggja dótturfélaga Samherja, sem nú hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta, í heimildaþættinum „Teir ómettuligu“ á færeyska Kringvarpinu fyrir viku. Í kjölfarið var rætt við fyrrnefndan Eyðun í þættinum Degi og viku þar sem hann sagði að skítamál væri á ferðinni. Fréttastofa RÚV sagði frá viðtalinu undir fyrirsögninni „Rannsókn hafin á Samherja í Færeyjum“.

Degi síðar sendi Samherji frá sér yfirlýsingu þar sem fullyrt var að fréttin byggði á útúrsnúningi og rangtúlkunum á ummælum Eyðuns. Útgerðin hefði sent honum fyrispurn og í skriflegu svari hans kæmi fram að „endursögn RÚV á ummælum hans sé röng. Þá fékk Samherji staðfest að engin skattrannsókn væri í gangi í Færeyjum á hendur félaginu,“ sagði í yfirlýsingu.

„Að sjálfsögðu verðu „málið“ sem varð umtalað eftir myndina „Tey ómettuligu“ kannað af Taks, eins og ég sagði í Degi og viku fimmtudagskvöldið 11. mars. Og ég hef ekki á nokkurn hátt staðfest við Samherja á Íslandi að málum verði háttað á annan veg en ég sagði í Degi og viku,“ ritar Eyðun Mørkøre á Facebook-síðu sinni.

Þeim fjölgar því landsvæðunum þar sem Samherji er til rannsóknar en fyrir standa yfir rannsóknir á Íslandi og í Namibíu.

 

Sjálvandi verður "málið" sum varð umtalað í sendingini "Tey ómettuligu" kannað av TAKS, eins og eg segði í Degi og viku...

Posted by Eyðun Mørkøre on Saturday, 13 March 2021

 

Stikkorð: Samherji