Í viðtali við Viðskiptablaðið segir Brynja Baldursdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo Lánstrausts, að lánshæfi einstaklinga sé reiknað út frá breytum á borð við fyrirspurnir í vanskilaskrá, hverjir eru að sýna lánshæfi einstaklings áhuga og vakta viðkomandi. Einnig séu notaðar upplýsingar úr skattskrá og ýmsar lýðfræðilegar breytur. Ef einstaklingur tengist fyrirtæki þá hafa upplýsingar um það fyrirtæki áhrif á lánshæfismat viðkomandi, og öfugt.

Eru þessar aðferðir eitthvað uppfærðar?

„Já, já. Við förum yfir líkönin einu sinni ári og uppfærum þau ef tilefni er til. Notkunin á upplýsingunum er alltaf að breytast og þróast. Fyrir nokkrum árum vorum við mest að selja punktstöður, fólk fletti bara upp í vanskilaskrá þegar þeim þótti ástæða til. Núna eru eiginlega allir komnir með vakt og eru þá að fylgjast með sínu safni og fá upplýsingar þegar þær breytast, sem er auðvitað það sem skiptir mestu máli. En þetta breytir notkunarmynstrinu, þannig að við þurfum að uppfæra módelin í samræmi við það.

Margir hringja og kvarta

Notkun hefur líka verið að færast mikið úr vanskilaskrá, sem segir í rauninni bara til um það hvort viðkomandi sé á skrá í dag, yfir í lánshæfismatið, sem gefur líkur á þróun. En vægi þessara breyta í líkaninu hefur breyst og erum við að vinna að uppfærslu á lánshæfismatinu þessa dagana út frá því.“

Brynja segir að margir hafi samband við Creditinfo og kvarti undan lánshæfismati sínu, en að einnig sé mikið um það að einstaklingar og fyrirtæki með gott lánshæfismat spyrji út í það. Hún tekur fram að lánshæfismat séu mjög verndaðar upplýsingar og að alltaf þurfi skriflegt samþykki fyrir uppflettingu.

Hver er besta leiðin fyrir einstaklinga að bæta sitt lánshæfismat?

„Það er að standa í skilum. Það er í rauninni bara númer eitt, tvö og þrjú,“ segir Brynja.

Ítarlegt viðtal við Brynju er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .