Guðmundur Þóroddsson hefur lengi leitað nýrra tækifæra í beislun jarðvarma um allan heim. Frá 1999 til 2007 var hann forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, en fór svo í leyfi til að taka við starfi forstjóra Reykjavík Energy Invest. Á stuttum líftíma sínum dróst það fyrirtæki inn í miklar deilur í reykvískum stjórnmálum og samfélaginu öllu.

Skömmu fyrir fjármálahrunið tók Guðmundur síðan þátt í stofnun orkufyrirtækisins Reykjavík Geothermal ásamt fyrrverandi starfsmönnum REI. Reykjavík Geothermal vinnur nú að jarðvarmaverkefnum í Eþíópíu, Mexíkó og Karíbahafinu.

Guðmundur segir í viðtali við Viðskiptablaðið að RG sé nú að vinna að fjórum stórum þróunarverkefnum. Tvö þeirra eru í Eþíópíu.

Eþíópíumenn vanir að reka stórar einingar

Býstu við því að það verði krefjandi að reka hátækniorkuver í þróunarlandi eins og Eþíópíu?

„Það verður það náttúrulega. Það þarf að þjálfa mannskap og svo er þetta verkefnafjármögnun, sem er svolítið frábrugðin því sem við eigum að venjast á Íslandi þar sem þetta er yfirleitt fjármagnað af fyrirtækjum. En þarna er um verkefnafjármögnun að ræða þannig að allir hlutir þurfa að vera mjög vel skilgreindir, allar ábyrgðir skilgreindar áður en lagt er af stað.

Það verður mjög krefjandi að ná því öllu saman. Hins vegar eru Eþíópíumenn alvanir því að reka stórar einingar og stór orkuver. Ég hef engar áhyggjur af því í sjálfu sér að vera í Eþíópíu. En það er alltaf erfitt að koma á fyrsta orkuverinu.“

Hvernig upplifirðu viðskiptaumhverfið í þessum löndum þar sem þið hafið verið að starfa, í samanburði við Ísland?

„Það er náttúrulega dálítið frábrugðið, og mjög frábrugðið frá einu landi til annars. Í Eþíópíu erum við til dæmis í mjög svipuðu umhverfi eins og á Íslandi. Þungt skrifræði sem erfitt er að hreyfa við. Að sumu leyti er það betra umhverfi, af því menn eru mjög uppteknir af því að lagaumhverfið haldi og að persónulegar sveiflur í pólitík ráði ekki of miklu. En það er samt mjög svipað umhverfi og hér.“

Tímafrestir halda ekki á Íslandi

Finnst þér þú upplifa það hér á Íslandi að það séu miklar sviptingar í hinu pólitíska umhverfi?

„Hér er allt pólitískt. Umhverfismál eru pólitík, reglur gilda ekki nema stundum. Meira segja jarðfræði er farin að verða pólitísk sýnist mér.“

Spurður um það hvað íslensk stjórnvöld geta helst lært af stjórnvöldum í Eþíópíu segir Guðmundur að aðalljóðurinn á íslenska kerfinu sé sá að fyrir stjórnvöldum sé ekkert heilagt.

„Til að mynda eru engir tímafrestir sem halda. Ef þú leggur eitthvað mál inn og það á að afgreiðast á þremur vikum þá getur vel verið að það taki þrjú ár að afgreiða það ef það hefur einhverja pólitíska merkingu. Og það er bara öllum sama.“

Ítarlegt viðtal við Guðmund er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .