Um mánuði áður en hann tók við sem bankaráðsformaður Landsbankans árið 2009 hafði Gunnar Helgi Hálfdanarson hætt hjá erlendu fjármálafyrirtæki eftir tíu ár. Alls ekki hafi verið áhættulaust að taka við starfinu, enda hafi hér geisað eldar og bankamenn verið litnir hornauga, ekki síst starfsfólk Landsbankans.

Frá árslokum 2009 til ársloka 2012 hækkaði innra virði hlutafjár ríkisins í bankanum að meðaltali um 20% á ári. Kom þetta fram í máli Gunnars á aðalfundi bankans í dag. Hann var að ljúka þriðja og síðasta ári sínu sem bankaráðsmaður í bankanum.

„Það sýndi sig líka fljótt að þau okkar sem áttum að taka til eftir aðra vorum ekki undanskilin þessu. Um tíma var höfð öryggisvakt við heimili bankaráðsformanns, þótt hún hafi sem betur fer staðið skemur en hjá framkvæmdastjórn og sumum öðrum starfsmönnum bankans.“

Hann segir að það að vera beðinn að taka við bankaráðsformennsku á þessum tíma hafi verið eins og herkvaðning og undan henni skjóti maður sér ekki þótt umbunin sé ekki mikil að því undanskyldu að vinna að góðum málum.

Viðfangsefnið var tröllaukið að sögn Gunnars Helga. Landsbankinn uppfyllti ekki lágmarkskröfur FME um eigið fé og starfaði á undanþágu. Vanskil voru í tugum prósenta og fóru vaxandi. Efnahagshorfur hér og erlendis voru tvísýnar. Við það bættist pólitísk óvissa.

Háfleyg markmið

Hann segir að Landsbankinn virðist á þessum tíma hafa tapað trausti viðskiptavina umfram hinna bankanna, meðal annars vegna Icesave. Sama átti við um starfsfólk bankans sjálfs, en óánægja og skortur á trausti til bankans var töluverð meðal þess. Segir hann að eftir einkavæðingu bankans hafi nýir eigendur sett fólk inn framkvæmdastjórn sem aðrir starfsmenn litu á sem yfirstétt í bankanum sem sinnti eigin hugðarefnum. Þessir framkvæmdastjórar hafi enn verið hjá bankanum þegar hann tók við sem bankaráðsformaður og margir þeirra hafi sætt opinberum ávirðingum.

Nýtt bankaráð setti sér og bankanum markmið sem mörgum þótti brött, þar á meðal Steingrími J. Sigfússyni, þáverandi fjármálaráðherra. Bankinn ætti að verða fyrirmyndarfyrirtæki og skráningarhæfur fyrir árslok 2012 ef svo bæri undir. Bankaráðið reyndi að ganga á undan með góðu fordæmi með opnum skoðanaskiptum, með því að kalla eftir ólíkum sjónarmiðum og meta þau að verðleikum, þótt þetta hafi stundum orðið til þess að fundir urðu lengri en ella. Segir hann að þótt háfleygum markmiðum hafi ekki enn verið náð þá hafi mikilvægir áfangasigrar unnist og hann standi nú mun betur en áður.

Fyrsta skrefið var að finna nýjan bankastjóra og var Steinþór Pálsson mjög góður kostur. Þegar kom að því að skipa nýja framkvæmdastjórn var ákveðið að nýta ekki þá sem voru í framkvæmdastjórninni fyrir hrun. Í því fólst ekki dómur yfir neinum, heldur vildi bankaráðið ekki hafa það ekki hangandi yfir sér að hugsanlega í framtíðinni kæmi eitthvað upp á.