Sérstakur saksóknari hefur ákært konu á fimmtugsaldri fyrir fjárdrátt. Konan er fyrrverandi starfsmaður sveitarfélagsins Skagafjarðar og er hún sökuð um að hafa dregið sér rúmar 26 milljónir króna á árinum 2009 til 2013. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Konan starfaði sem aðalbókari og síðar fjármálafulltrúi hjá sveitarfélaginu. Frá október 2009 til ársloka 2013 millifærði hún 24,8 milljónir króna af reikningi sveitarfélagsins yfir á eigin bankareikninga. Hún millifærði einnig 1,2 milljónir króna af reikningi Upplýsingamiðstöðvar Norðurlands vestra yfir á sinn eigin reikning og 200 þúsund krónur af reikningi Byggðasafns Skagafjarðar.

Sérstakur saksóknari krefst þess að konan verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakakostnaðar. Þess er einnig krafist að hún greiði sveitarfélaginu tilbaka 26,7 milljónir króna með vöxtum og sæti upptöku á 3,1 milljón króna, sem gerðar voru upptækar af bankareikningi hennar.