Oddný G. Harðardóttir, fjármálaráðherra, mun halda á eina atkvæðinu sem öllu ræður á aðalfundi Ríkisútvarpsins 30. janúar næstkomandi. Ríkið er líka eini hluthafinn og fer fjármálaráðherra með hluthafavald ríkisfyrirtækja. Áður var þetta vald í höndum menntamálaráðherra.

Samkvæmt lögum um opinber hlutafélög í eigu ríkisins þá eiga, auk hluthafans, stjórnar, endurskoðanda og framkvæmdastjóra, alþingismenn og fulltrúar fjölmiðla rétt til að sækja aðalfundi. Tillögurétt á aðalfundum hafa fulltrúar hluthafans, auk þess sem gert er ráð fyrir að stjórn félags geri tillögur um tiltekin málefni.

Alþingismenn mega bera fram fyrirspurnir

Alþingismenn hafa heimild til að bera fram skriflegar fyrirspurnir á aðalfundum. Eingöngu fulltrúi hluthafa, þ.e. íslenska ríkisins, hefur atkvæðisrétt.

Meðal dagskrárliða aðalfundarins eru:

  • Skýrsla stjórnar og ársreikningar
  • Ákvörðun um meðferð hagnaðar eða taps
  • Tillaga stjórnar um starfskjarastefnu lögð fram til samþykktar
  • Ákvörðun um þóknun til stjórnarmanna
  • Kosning stjórnar