Ekki stendur til að afboða aðalfund Samtaka atvinnulífsins (SA) sem verður haldinn að öllu óbreyttu eftir hádegi í dag, þrátt fyrir það óveður sem nú stendur yfir á Höfuðborgarsvæðinu.

Þetta staðfestir Hörður Vilberg, upplýsingafulltrúi SA, í samtali við Viðskiptablaðið. Lögreglan hefur hvatt íbúa til að vera heima og á vef Morgunblaðsins er haft eftir Þorsteini V. Jónssyni, veðurfræðing á Veðurstofu Íslands, að óveðrið muni standa yfir í allan dag.

Hörður segist ekki búast við öðru en að fundurinn verði haldinn og ekki hefur verið rætt um að fresta honum eða afboða.

Nýr formaður SA verður kjörinn í dag en Vilmundur Jósefsson, fráfarandi formaður, gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, er einn í formannsframboði en rafrænni kosningu lýkur kl. 12 í dag.