„Það var algert lotterí að fá vinnu á þessum tíma,“ segir Aðalheiður Héðinsdóttir, forstjóri Kaffitárs, um sín fyrstu störf, annars vegar í fiskvinnslu og hins vegar í mötuneytinu á vellinum í Keflavík. Fyrsta starf Aðalheiðar var reyndar við barnapössun, þá 10 ára gömul, enda ætlaði hún alltaf að verða fóstra, sem hún og varð síðar á ferlinum áður en hún sneri sér að kaffibransanum.

„Ætli fyrsta alvörustarfið í mötuneytinu fyrir hermennina hafi ekki að einhverju leyti verið tengt því hvar ég endaði. Þetta var jú matvælatengt,“ segir Aðalheiður. „Foreldrar mínir vildu helst ekki nýta sér nein sambönd til að koma mér að í vinnu, enda man ég hvað ég var glöð þegar mér bauðst vinnan á vellinum. Svo eftirsótt var starfið.“