Aðalheiður Héðinsdóttir, framkvæmdastjóri og einn stofnenda Kaffitárs, telur ekki miklar líkur á að rekstri Kaffitárs verði haldið áfram í brottfararsal Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar þegar samningur fyrirtækisins við Isavia rennur út um næstu áramót. Aðalheiður er ósátt og segir margt athugavert við útboð Isavia.

Eins og fram kom á VB.is í dag var Kaffitár ekki á meðal fyrstu kosta um veitingarekstur í flugstöðinni, að mati valnefndar Isavia. Fyrirtækið hefur haft rekstur í Fríhöfninni í áratug. Isavia efndi til útboðs um rekstur verslana og veitingahúsa í brottfararsalnum í vor. Útboðið var auglýst á evrópska efnahagssvæðinu og urðu þeir sem buðu í reksturinn að skila inn ítarlegum upplýsingum á ensku. Nú er svo komið í ferlinu að viðræður eru hafnar við þá sem komust áfram. Sömuleiðis hefur þeim verið tilkynnt um niðurstöðuna sem ekki komust áfram í valinu og ekki verður rætt við.

Stjörnuhönnuður dugði ekki til

Aðalheiður segir að mikið hafi verið lagt í tilboðið þegar reksturinn var boðinn út, m.a. hátt leiguverð og íslenskar vörur. Nánast allar vörur okkar er íslensk framleiðsla, ekki bara kaffið heldur einnig allt brauð og bakkelsi frá nýja fyrirtækinu okkar Kruðeríi. Fyrirtækið setti saman teymi fólks sem lagði drög að nýju kaffihús þar sem Ísland var í fyrirrúmi, enda eru íslenskar áherslur rauði þráðurinn í útboðslýsingunni. Fatahönnuðurinn Steinunn Sigurðardóttir var á meðal þeirra sem voru í teyminu en hún hefur unnið til fjölda viðurkenninga fyrir sína hönnun.

Aðalheiður segist ósátt við ákvörðun valnefndar, bæði óskiljanlega einkunnargjöf sem lá til grundvallar ákvörðuninni og að ganga eigi hugsanlega til samninga við alþjóðlega veitingakeðju þegar í útboðslýsingu hafi sagt að metnaður Isavia sé að í flugstöðinni verði boðið upp á vörur sem undirstrika hið sérstaka á Íslandi og endurspegli hið besta sem boði er upp á í Reykjavík og Íslandi.

Óskaði eftir upplýsingum um niðurstöðu útboðsins

Aðalheiður óskaði eftir  upplýsingum um niðurstöðu útboðsins, hverjir buðu, einkunnargjöf, rökstuðningi fyrir einkunnargjöf og hvernig einkunnargjöf fellur að útboðslýsingu. Valnefndin afhenti eingöngu einkunnargjöf Kaffitárs, en neitaði að veita upplýsingar um aðra þætti. Aðalheiður segir að margt hafi vakið furðu hennar þegar hún sá  einkunnargjöfina, s.s. falleinkunn, 3 stig á 10 mögulegum fyrir fjárfestingu í  nýju kaffihúsi, áætlaðan kostnað við viðhald staðarins og trúverðugleika áætlunarinnar.

„Ég hefði haldið að við vissum hvað þyrfti að til að koma upp flottu kaffihúsi og viðhald kostaði, svona í ljósi þess að Kaffitár hefur verið með rekstur í flugstöðinni í 10 ár og rekur auk þess sjö önnur kaffihús,“ segir hún.

Aðalheiði finnst einkennilegt að ekki sé hægt að verða við beiðni um upplýsingar,  t.d. hverjir buðu og hvernig valnefndin komst að niðurstöðu. „Mér finnst að þetta eigi að vera opinbert, ekki síst í ljósi þess að íslenska ríkið stendur á bak við útboðið.  Ég skil ekki þessa leynd.“ segir hún. Aðalheiður segir að missa aðstöðuna í flugstöðinni sé stórmál fyrir Kaffitár, því ef ekki finnast aðrar lausnir, þá þýði þetta atvinnumissir fyrir tugi einstaklinga í flugstöðinni, brennslunni og Kruðeríi.