Aðalheiður Ósk Guðmundsdóttir hefur verið ráðin í starf framkvæmdastjóra Vök Baths og mun hún hefja störf í ársbyrjun 2021.
Aðalheiður er viðskiptafræðingur með M.Sc. gráðu frá Háskóla Íslands í nýsköpun og viðskiptaþróun  og B.Sc. gráðu frá Háskólanum á Akureyri.

Áður starfaði Aðalheiður sem deildarstjóri ráðgjafar og þjónustu hjá Advania, vörustjóri á sölu- og markaðssviði hjá Reykjavík Excursions – Kynnisferðum og verkefnastjóri hjá Air Atlanta Icelandic. Þá hefur hún setið í stjórn Stjórnvísi frá 2017 og gengt þar formennsku frá 2019.

Stjórn Vök Baths væntir mikils af samstarfinu við Aðalheiði en alls sóttu 100 manns um starfið þegar það var auglýst í haust.

Björn Gíslason, stjórnarformaður Vök Baths, segir stjórn félagsins vera ánægða með ráðninguna því Aðalheiður búi yfir mikilli reynslu í rekstri, markaðsmálum og þjónustu við viðskiptavini. Auk þess hafi hún mikinn áhuga og þekkingu á ferðaþjónustu og þá sérstaklega upplifunarhönnun fyrir ferðamenn.

„Það er spennandi tækifæri en jafnframt krefjandi að taka við sem framkvæmdastjóri hjá Vök Baths”, segir Aðalheiður og bætir við. „Mér finnst mjög gaman að takast á við nýjar áskoranir og leggja mitt af mörkum. Ég hlakka til að flytja á Egilsstaði og taka virkan þátt í samfélaginu og auka verðmætasköpun á svæðinu.“