Aðalmeðferð í máli sérstaks saksóknara gegn fyrrverandi stjórnendum og aðaleiganda Kaupþings í al-Thani málinu hefst í dag. Þetta er eitt stærsta mál sérstaks saksóknara sem komið hefur upp eftir hrun. Málið tengist kaupum al Thanis á 5% hlut í Kaupþingi á 26 milljarða króna.

Sérstakur saksóknari telur að um sýndarviðskipti hafi verið að ræða og að fjármagn fyrir kaupum á hlutnum hafi komið úr Kaupþingi. Á þeim grundvelli ákærir hann Hreiðar Má Sigurðsson, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, Sigurð Einarsson, fyrrverandi stjórnarformann, Ólaf Ólafsson, sem var einn stærsti eigandi bankans, og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í Lúxemborg. Þeir eru ákærðir fyrir umboðssvik vegna ólöglegra lánveitinga og markaðsmisnotkun fyrir að gefa rangar upplýsingar um stöðu bankans.

Upphaflega stóð til að réttarhöldin færu fram í apríl en dómari frestaði þeim þegar Gestur Jónsson, sem var verjandi Sigurðar, og Ragnar Hall, sem var lögmaður Ólafs, báðust lausnar frá málinu.