Aðalmeðferð var í meiðyrðamáli Pálma Haraldssonar gegn Svavari Halldórssyni, fréttamanni á Rúv, í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Pálmi stefndi Páli Magnússyni í útvarpsstjóra og Maríu Sigrúnu Hilmarsdóttur fréttaþuli til vara í málinu.

Í frétt Svavars frá 25. mars síðastliðinn var greint frá láni sem Fons fékk hjá Glitni uppá 2,5 milljarða króna, sem virtust hafa týnst. Pálmi krefur Svavar um 3 milljónir króna í miskabætur auk dráttarvaxta og 600 þúsund krónur í viðbót til að birta dóminn í tveimur dagblöðum.   Til vara er María Sigrún Hilmarsdóttur, sem var fréttalesari umrætt kvöld, og Páli Magnússyni útvarpsstjóra stefnt verði ekki fallist á það að Svavar hafi flutt alla fréttina og þar með borið ábyrgð á inngangi sem María Sigrún las.

Pálmi er meðal annars ósáttur við fyrirsögn sem birtist á skjánum þegar inngangur fréttarinnar var lesinn. Þar stóð: „Milljarðar hurfu í reyk." Einnig er hann ósáttur við að í fréttinni kom fram að hann hefði tekið lánið en hið rétta sé að Fons hafi verið lántakandinn. Pálmi var aðaleigandi og stjórnandi Fons á þessum tíma. Þá segir í stefnu Pálma að í fréttinni sé hann vændur um refsivert athæfi þegar sagt er að „peningarnir eru týndir" og „þeir peningar finnast hins vegar hvergi" og vísað þar til lánsins.

Í greinargerð lögmanns Maríu Sigrúnar og Páls í málinu segir að leiða megi að því líkur að virðing almennings fyrir Pálma Haraldssyni hafi verið takmörkuð og ímynd hans miður góð eftir hrun bankanna. „Stefnandi er í hópi manna, sem hafa verið úthrópaðir á spjallsíðum, í fjölmiðlum og víðar, hús þeirra ötuð málningu og hróp að þeim gert.  Má leiða að því líkur að virðing almennings fyrir stefnanda hafi verið takmörkuð og ímynd hans miður góð eftir hrun bankanna í október 2008.  Þá má nefna að Glitnir banki hf. hefur höfðað mál á hendur stefnanda ásamt öðrum í New York og stefnandi hefur viðurkennt í viðtali við DV að hafa tekið þátt í siðferðilega vafasömum viðskiptum og að eiga þátt í bankahruninu.  Stefnandi getur þannig ekki með nokkru móti haldið því fram að mannorð hans sé óflekkað eða æra hans ómenguð,“ segir í greinargerð Viðars Lúðvíkssonar, lögmanns Maríu Sigrúnar og Páls. Segir að ekki verði séð að ummæli í fréttinni um Pálma hafi valdið því að orðspor eða ímynd hans hafi skaðast.

Í greinargerð Karls Axelssonar, lögmanns Svavars Halldórssonar, kemur fram að Pálmi hafi að minnsta kosti 50 tilfellum samsamað sig Fons. Hann hafi um árabil verið kenndur við hlutafélagið Fons, án þess að hafa gert við það athugasemdir.

Búast má við niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness á næstu 4-8 vikum.