Skýrslutökum er lokið í Vafningsmálinu en samtals mættu 33 vitni fyrir dóm. Í dag mættu 9 vitni en á meðal þeirra var Karl Wernersson sem mætti ekki þegar hann var boðaður síðasta þriðjudag. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Karl sagðist hafa verið upptekinn síðasta þriðjudag þegar dómarinn krafðist svara. Dómarinn sagði í framhaldi að vitnaskýrslur væru æðri öðrum skyldum. Karl staðfesti síðan efni skjala og svaraði spurningum lögmanna.

Önnur vitni voru að mestu leyti starfsmenn sérstaks saksóknara. Vafningsmálið snýst um 10 milljarða króna lánveitingu Glitnis til Milestone sem upphaflega átti að fara til Vafnings. Þeir ákærðu, Lárus Welding og Guðmundur Hjaltason, eru sakaðir um að hafa heimilað lánveitinguna en þeir neita sök.

Munnlegur málflutningur hefst í næstu viku og er áætlað að flutningurinn taki um 6 klukkutíma.