*

laugardagur, 16. nóvember 2019
Innlent 5. október 2019 15:04

Aðalskoðun stenst skoðun

Hagnaður skoðunarfyrirtækisins jókst um 135%, í 41 milljón á síðasta ári, meðan eiginfjárhlutfallið lækkaði úr 44% í 28%.

Ritstjórn
Ómar Þorgils Pálmason er framkvæmdastjóri Aðalskoðunar og forráðamaður stærsta hluthafans.
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður Aðalskoðunar jókst um tæplega 135% á síðasta ári, úr 17,4 milljónum í 40,8 milljónir króna, en tekjurnar jukust um 8,5%, úr 573,9 milljónum í 622,8 milljónir króna meðan rekstrarkostnaðurinn jókst um 3%, úr 535,7 milljónum í 551,9 milljónir króna.

Félagið greiddi út 112,8 milljónir í arð á síðasta ári og stefnir að greiðslu 73,8 milljóna í ár. Lækkaði eigið fé félagsins á árinu 2018 um 40%, úr 179,9 milljónum í 107,9 milljónir, meðan skuldirnar jukust um 22%, úr 268,4 milljónum í 326,4 milljónir króna, svo eiginfjárhlutfallið lækkaði úr rúmum 44% í tæplega 28%.

Handbært fé frá rekstri félagsins lækkaði um ríflega helming milli ára, eða 56%, úr 99,1 milljón króna í 43,3 milljónir króna. Handbært fé í árslok 2017 nam tæplega 4,7 milljónum króna en í árslok 2018 var það komið niður í rétt rúmlega 2 milljónir króna.

Fjárfestingahreyfingar voru neikvæðar um 5,1 milljón króna á árinu en höfðu verið neikvæðar um 22,2 milljónir árið 2017 meðan fjármögnunarhreyfingar voru neikvæðar um 44,8 milljónir króna árið 2018 en voru neikvæðar um 77,1 milljón árið 2017.

Ómar Þorgils Pálmason er framkvæmdastjóri, en félagið Fljótsbakki 17 ehf., sem hann er skráður forráðamaður fyrir, er stærsti eigandinn með tæplega 90% hlut. Aðalskoðun sjálf á 10% eignarhlut, en félagið Aðstoð og Öryggi ehf., á pínulítinn eignarhlut.