Engin mál í uppnámi hjá Fjármálaeftirlitinu vegna þess að Gunnari Andersen var vikið úr starfi forstjóra, hvorki þau sem eru til rannsóknar né þau sem hafa verið til rannsóknar. Þetta sagði Aðalsteinn Leifsson, formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins á blaðamannafundi í dag.

„Því hefur verið haldið fram að Gunnar Andersen hafi vísað 77 málum til sérstaks saksóknara, og jafnvel að þessi stjórn hafi gengið erinda manna sem hafa verið til rannsóknar. Um þetta er að segja að Gunnar Andersen hefur ekki vísað einu máli til sérstaks saksóknara. Hið sanna er að hér er harðsnúið lið fólks sem hefur velt hverjum steini til að rannsaka hrun bankakerfisins. Út úr því hafa orðið til pappírar sem hafa farið hér fyrir stjórnina, og stjórnin hefur vísað málum til sérstaks saksóknara,“ sagði Aðalsteinn.

Á blaðamannafundinum var kynnt ákvörðun um að víkja Gunnari úr starfi forstjóra FME. Einnig var greint frá því að stjórnin hefur kært mál til lögreglu vegna meintra brota Gunnars í starfi.

„Það er algjörlega fráleitt að stjórn FME, tveir háskólakennarar og aðstoðarbankastjóri Seðlabanka Íslands, gangi erinda manna sem hafa verið til rannsóknar, og að sama stjórn hafi vísað málum til sérstaks saksóknara,“ sagði hann.