Aðalsteinn Leifsson, formaður stjórnar FME, sagði á fundi með blaðamönnum í dag að Gunnar Andersen uppfylli ekki skilyrði sem Fjármálaeftirlitið setur öðrum. Stjórn FME kynnti á fundinum ákvörðun um að víkja Gunnari úr starfi forstjóra eftirlitsins.

„Nú er það svo að eitt af lykilatriðum Fjármálaeftirlitsins er að meta hæfi einstaklinga til að gegna stjórnunarstörfum í fjármálafyrirtækjum, til að meta hæfi fólks til að sitja í stjórnum eftirlitsskyldra aðila og til að meta fólk til að fara með stóran eignarhlut í fjármálafyrirtækjum. Þegar þetta liggur fyrir þá er ljóst að Gunnar uppfyllir ekki þær kröfur sem þarf til að vera stjórnandi fjármálafyrirtækis, að sitja í stjórn eftirlitsskylds aðila eða sækjast eftir að fara með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki,“ sagði Aðalsteinn.

„Þetta er óþolandi staða vegna þess að við getum ekki beitt einum mælikvarða á eftirlitsskylda aðila og öðrum mælikvarða á okkar eigin forstjóra,“ sagði hann. „Það verður að vera hafið yfir allan vafa að okkar eigin forstjóri uppfyllir kröfur til eftirlitsskyldra aðila. þess vegna vegur það þungt í mati okkar að þegar að Gunnar kemur fram í andmælum sínum og opinberi umræðu að upplýsingagjöf hafi verið rétt, og það hafi beinlínis verið rangt að veita FME upplýsingarnar. Þetta er í hróplegri andstöðu við stefnu eftirlitsins eins og hún kemur fram í kærum sem héðan hafa farið.“

Aðalsteinn sagði að þriggja manna stjórn FME hafi verið einhuga í afstöðu sinni um að víkja Gunnari úr starfi.