Lengi hefur verið á huldu hvert raunverulegt umfang auðæfa heimskonunnar Sonju de Zorrilla voru. Lögmaður Sonju í Bandaríkjunum, John J. Ferguson segir við Viðskiptablaðið að bandaríski auðmaðurinn John Loeb, sem var stóra „ástin í lífi“ Sonju hafi stofnað fyrir hana styrktarsjóði sem hún hafi fengið reglulegar greiðslur úr síðari hluta ævi sinnar. Við andlát Sonju hafi þeim verðmætum hafi verið skilað til erfingja Loeb.

Í erfðaskrá Sonju kom fram að stofna ætti minningarsjóð í þágu „heilsu og menntunar barna.“ Sjóðurinn ber nafnið Sonja Foundation og voru Guðmundur A. Birgisson, kenndur við Núpa, frændi Sonju og John Ferguson skipaðir sjóðstjórar en takmarkaðar upplýsingar hafa til verið veittar fjölmiðlum um fjármál sjóðsins þar til nú en fjallað er um fjármál sjóðsins í úttekt Viðskiptablaðsins í dag.

Sjá einnig: Sjóður Sonju de Zorrilla fundinn

Í fyrstu fréttinni um minningarsjóð Sonju sem birt var í aðdraganda útgáfu ævisögu Sonju sem Reynir Traustason skráði, var fullyrt að um milljarðasjóð yrði að ræða. Sú fullyrðing hefur verið endurtekin í fréttum síðan og alla jafna hefur verið vísað til bókarinnar Ríkir Íslendingar sem Sigurður Már Jónsson gaf út árið 2001. Þar var fullyrt að Sonja væri ríkasta kona landsins og auður hennar næmi um 9,5 milljörðum króna. Sigurður Már segir að fjárhæðin hafi meðal annars byggt á upplýsingum frá Reyni en bók Sigurðar kom út ári áður en ævisaga Reynis um Sonju kom út.

Vitað var að Sonja átti myndarlegt listaverkasafn, sem og ýmis hluta- og skuldabréf. Hún bjó lengst af í stórri íbúð við 580 Park Avenue á Manhattan og dvaldi langdvölum í íbúð sinni á Key Largo Ocean Reef Club í Flórída.

„Aðalverðmætin“ gengu aftur til erfingja Loeb

Í raun voru um 3,5 milljónir dollara, um hálfur milljarður króna, greiddar úr dánarbúi Sonju í minningarsjóðinn líkt og greint er í úttekt Viðskiptablaðsins. „Ólíkt því sem margir á Íslandi halda var Sonja de Zorrilla ekki svo auðug,“ segir John Ferguson.

Sonja de Zorrilla fæddist í Reykjavík árið 1916 en flutti ung af landi brott og bjó lengst af í New York. Hún átti í ástarsambandi við Aristotle Onassis, sem auðgaðist meðal annars á skipasmíðum og giftist síðar Jackie Kennedy, ekkju John F. Kennedy Bandaríkjaforseta. Sonja giftist að lokum argentínska ólympuverðlaunahafanum Alberto de Zorrilla. Stóra ástin í lífi hennar var hins vegar John Loeb, sem var um tíma forstjóri Kauphallarinnar í New York. Þó þau hafi bæði verið gift öðrum stærstan hluta ævi sinnar stóð samband þeirra í áratugi. „Sonja sagði mér að John Loeb hefði verið ástin í lífi hennar," segir Ferguson við Viðskiptablaðið.

„Það lítur út fyrir að hún kunni að hafa átt í áralöngu ástarsambandi með Loeb þar sem hann stofnaði þrjá sjóði (e. trusts) fyrir Sonju þegar hún var á sextugsaldri. Sonja átti hins vegar engin börn og runnu sjóðirnir því aftur til fjölskyldu Loeb við andlát hennar,“ segir Ferguson. Það rímar við ummæli Guðmundar A. Birgissonar úr Kompásþætti um styrktarsjóð Sonju frá árinu 2007 þar sem hann segir „aðalverðmætin í þessu gengu eiginlega til baka til ákveðins aðila sem var tengdur henni mjög lengi“.

Sambandið við „Lubba“ stóð í áratugi

Í ævisögu Sonju eftir Reyni Traustason er mikið fjallað um samband hennar við John Loeb eða Lubba eins og hún kallaði hann alltaf. Þar segir að Loeb hafi um sextugt tilkynnt Sonju að hann myndi arfleiða hana af hluta eigna sinna. Sonja hafi það sem eftir var ævi sinnar fengið mánaðarlegar greiðslur úr styrktarsjóði Loebs, líkt og börn Loebs. Ef Sonja eignaðist börn myndu þau síðan einnig fá greiðslur úr sjóðnum en ekki kom til þess þar sem Sonja var barnlaus. Í ævisögunni kemur einnig fram að hún hafi ekki haft hug á að flytja í jafn stóra íbúð og þá í 580 Park Avenue en John Loeb hafi viljað hafa hana sem næst sér þar sem hann bjó við sömu götu. Loeb hafi því liðkað fyrir kaupunum.

Nánar er fjallað um auð Sonju og styrktarsjóðinn Sonja Foundation í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .