Endurskoðunarfélagið PricewaterhouseCoopers (PWC) hefur tekið yfir rekstur bresku barnafatakeðjunnar Adams Kids en þannig verður Adams nýjasta smásölukeðjan sem tekin er í gjörgæslu vegna minnkandi einkaneyslu og rekstrarerfiðleika.

Adams Kids er stærsta barnafataverslun Bretlands en hjá félaginu starfa um 3.200 manns.

Verslanir Adams, sem eru um 270, verða opnar á meðan fyrirtækið er í gjörgæslu PWC en ný tilsjónarnefnd félagsins hefur þó varað við því að einhverjum verslunum kunni að verða lokað innan skamms.

Í Bretlandi fara fyrirtæki ekki í beint í greiðslustöðvun líkt og hér á landi heldur tilnefnir dómari tilsjónarmann, sem oftast er endurskoðunarfélag, yfir fyrirtækjum þannig að hægt sé að koma eignum í verð, endurskipuleggja rekstur nú eða keyra félagið í þrot.

Í tilkynningu frá tilsjónarnefndinni kemur fram að vegna erfiðleika við öflun trygginga á bakvið viðskipti eigi Adams í erfiðleikum, líkt og svo margar aðrar smásölukeðjur, auk þess sem minnkandi smásala síðustu mánuði hafi gert rekstrarumhverfi félagsins erfitt.

„Adams Kids er hins vegar vel þekkt vörumerki í smásölugeiranum þannig að við gerum ráð fyrir því að félagið verði aðlagandi fjárfesting fyrir áhugasama fjárfesta,“ segir Rob Hund, yfirmaður tilsjónarnefndarinnar.