*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 11. júlí 2018 08:32

ADC hagnast um 415 milljónir

Hagnaður Advania Data Centers (ADC) fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam tæpum 1,1 milljarði króna á síðasta ári og ríflega sexfaldaðist milli ára.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Hagnaður Advania Data Centers (ADC) fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam tæpum 1,1 milljarði króna á síðasta ári og ríflega sexfaldaðist milli ára. Tekjur félagsins jukust um 120% og námu 2,8 milljörðum króna. Hagnaður eftir skatta nam 415 milljónum króna.

Eftirspurn eftir þjónustu ADC hefur aukist hratt á undanförnum árum. Félagið hefur skapað sér sérstöðu á hörðum samkeppnismarkaði með öruggum og skilvirkum rekstri, sérþekkingu á sviði ofurtölvulausna og framsæknum tæknilegum innviðum.

Framundan er enn frekari uppbygging og félagið ráðgerir að verja allt að sex milljörðum króna til fjárfestinga á þessu ári.  Þá gera áætlanir ráð fyrir mikilli tekjuaukningu á árinu vegna nýrra viðskiptasamninga, þar sem viðskiptavinir hafa laðast að sérstöðu Íslands og þeirri sérþekkingu sem starfsfólk ADC hefur byggt upp.

ADC þjónustar alþjóðleg fyrirtæki og stofnanir, þ.m.t. virtar rannsóknar-, vísinda- og menntastofnanir, framleiðslu- og tæknifyrirtæki. Þá kemur hluti teknanna frá þjónustu við fyrirtæki sem vinna rafmyntir, en þekking og reynsla félagsins á því sviði hefur opnað dyr að ört vaxandi markaði.

„Þjónusta á sviði gervigreindar, sjálfvirkni og annarrar stafrænnar þjónustu mun vaxa hratt á næstu árum. Við erum í kjörstöðu til að veita slíka þjónustu og ætlum að nýta þau tækifæri sem skapast með fjórðu iðnbyltingunni. Við erum sátt við uppgjör síðasta árs, sem mun gera okkur kleift að fjárfesta í enn frekari uppbyggingu og vexti félagsins. Salan hefur gengið vel og við höfum náð að skapa okkur gott orðspor á alþjóða markaði. Við sjáum áframhaldandi þörf fyrir okkar þjónustu og verulega tekjuaukningu á þessu ári. Eftirspurnin heldur áfram að aukast og við erum að laða til okkar sífellt fleiri erlenda viðskiptavini. Efnahagslegt fótspor þjónustunnar og okkar viðskiptavina heldur því áfram að stækka; hér hafa orðið til verðmæt störf, félagið greiðir hundruð milljóna í skatta og hærra verð fyrir raforku en aðrir stórnotendur,“ segir Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri ADC:

Yfir 100 manns starfa í dag við rekstur og uppbyggingu gagnavera Advania Data Centers. Félagið er hátæknifyritæki sem sérhæfir sig í rekstri gagnavera, ofurtölva, blockchain og tölvubúnaðar sem hannaður er til að hámarka reiknigetu. Höfuðstöðvar félagsins eru á Íslandi en félagið rekur einnig starfsstöðvar í Svíþjóð, Þýskalandi, Noregi, Belgíu og Bretlandi.