Fjármálaeftirlitið segist harma ef Ingólfur Guðmundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verkfræðinga, telur að ummæli í sinn garð hafi falið í sér aðdróttanir eða ærumeiðingar. Þetta segir í færslu á vef FME þar sem greint er frá því að frétt á vef FME sem voru viðbrögð við frétt í Fréttablaðinu í apríl síðastliðnum. Ingólfur fór einnig fram á að Fjármálaeftirlitið birti afsökunarbeiðni vegna meiðandi umfjöllunar sem þar væri að finna.

„Fjármálaeftirlitið vill einnig taka fram að ef Ingólfur leggur þann skilning í fréttina að í henni hafi falist aðdróttanir eða ærumeiðingar í hans garð harmar Fjármálaeftirlitið það og ítrekar að slíkt var ekki ætlunin með umræddri frétt heldur að leiðrétta missögn,“ segir í færslunni.

Ingólfur hefur átt í málaferlum við FME vegna þess að stjórn eftirlitsins ákvað að hann uppfyllti ekki hæfisskilyrði til að gegna framkvæmdastjórastöðu lífeyrissjóðs. Hefur hann unnið tvö dómsmál gegn FME vegna þessa.