Hagvöxtur í Bandaríkjunum á fyrsta ársfjórðungi nam 0,2%, en sérfræðingar höfðu gert ráð fyrir að hann næmi 1% á tímabilinu. BBC News greinir frá þessu.

Einkaneysla var nokkru minni en búist hafði verið við auk þess sem orkufyrirtæki héldu að sér höndum vegna lækkandi olíuverðs. Þetta er töluvert minni vöxtur en á síðasta ársfjórðungi þegar hann nam 2,2%.

Bandarísk stjórnvöld segja að verkföll hafnarstarfsmanna á vesturströnd Bandaríkjanna hafi haft sitt að segja og komið í veg fyrir fyrirséðan vöxt. Hins vegar séu þegar farin að sjást merki þess að vöxturinn verði meiri á öðrum ársfjórðungi.