*

sunnudagur, 16. júní 2019
Innlent 12. júní 2019 09:00

Aðeins 0,7% samdráttur

Athygli vekur eftir uppfærslu talnanna að lækkun erlendrar kortaveltu í maí er einungis 0,7% þrátt fyrir fjórðungs fækkun ferðamanna í mánuðinum.

Ritstjórn
Getty Images

Í tilkynningu okkar frá því 12. júní síðastliðnum um kortaveltu erlendra ferðamanna vantaði hluta kortafærslna eins færsluhirðis frá maímánuði síðastliðnum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Rannsóknarsetri verslunarinnar.

Athygli vekur eftir uppfærslu talnanna að lækkun erlendrar kortaveltu í maí er einungis 0,7% þrátt fyrir fjórðungs fækkun ferðamanna í mánuðinum. Heildarvelta erlendra korta í maí síðastliðnum var þannig 18,5 ma.kr. í samanburði við 18,6 ma.kr. í maí 2018. Tölurnar eru birtar án flugsamgangna.

Aukning í netgreiðslum

Líklegasta skýringin á því að erlend kortavelta lækkar ekki meira en raun ber vitni er sú að stór hluti kortagreiðslna erlendis frá á vorin er vegna ferða sem pantaðar eru fram í tímann. Ef greiðslur eru flokkaðar eftir því hvort þær bárust í gegn um vefgátt eða posa, kemur í ljós að 4% vöxtur var í greiðslum um net í mánuðinum. Þá var 4,3% samdráttur í gegn um posa. Varla er annað hægt en að líta á þetta sem jákvæð teikn fyrir sumarið eftir annars ókyrrt vor í ferðaþjónustunni.

Verslun erlendra ferðamanna jókst á milli ára í maí og nam 2,8 milljörðum kr. í mánuðinum sem leið. Borið saman við fyrra ár mælist hlutfallsleg aukning 16,7%. Tveir stærstu undirflokkarnir eru dagvara og önnur verslun. Í fyrrnefnda flokknum jókst veltan um 14,8% á milli ára og nam tæpum 943 milljónum. Þá jókst velta í annarri verslun um 43,5% og nam 888 milljónum kr. í maí.

Velta vegna fataverslunar erlendra ferðamanna jókst þá um 6,4% á milli ára, í krónum talið nam aukningin rúmum 26 milljónum kr. Lítilvægur samdráttur var í veltu gjafa- og minjagripaverslana á milli ára eða um 2%.

Vöxtur var á veltu í gististarfsemi á milli ára og nam veltan 4,46 milljörðum kr. þar sem veltan jókst um 0,5% í maí. Á fyrra ári nam velta maí 4,43 milljörðum kr. í gististarfsemi. Var vöxturinn því heldur hóflegur.

Í flokki veitingaþjónustu gætti samdráttar, samanborið við fyrra ár, nam velta flokksins 2,1 milljarði kr. Hlutfallslega minnkaði veltan um 6,2% á milli ára eða um 140 milljónum kr.

Í flokknum ýmis ferðaþjónusta, sem nær til skipulagðra ferða og ferðaskrifstofa, var hóflegur vöxtur í kortaveltu erlendra ferðamanna.
Nam velta flokksins 3,8 milljörðum kr. í maí, aukning upp á 1,2% frá fyrra ári. Samdráttar gæti í greiðslum í gegnum posa í flokknum upp á 7,4% á meðan netgreiðslur jukust um 5,6%. Stærsti hluti greiðslna eru gerðar í gegnum netið í flokknum.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is