Landhelgisgæslan og lögreglan eru þær stofnanir samfélagsins sem njóta hvað mest trausts meðal almennings skv. nýrri skoðanakönnun Capacent. Nær níu af hverjum tíu svarendum bera mikið traust til Landhelgisgæslunnar og um 83% aðspurðra bera traust til lögreglunnar og hefur traust til hennar ekki áður mælst jafn mikið.

Almenningur var spurður um traust sitt til ýmissa stofnana samfélagsins og á vef Capacent kemur fram að sömu stofnanir voru í efstu sætunum núna og í fyrra.

Í þriðja sæti er Háskóli Íslands, en 77% svarenda bera mikið traust til hans, og þar á eftir Heilbrigðiskerfið sem nýtur mikils trausts tæplega 73% svarenda.

Þar á eftir kemur Embætti sérstaks saksóknara með ríflega 52%. Traust til Embættis sérstaks saksóknara minnkar töluvert en í fyrra sögðust 69% bera mikið traust til þess.

Þá hafa einnig orðið miklar breytingar til hins verra á trausti almennings til Þjóðkirkjunnar og Seðlabankans á milli ára. Hlutfall þeirra sem bera mikið traust til Þjóðkirkjunnar hefur lækkað jafnt og þétt með ári hverju og fer nú niður í 28%. Hlutfall þeirra sem bera mikið traust til Seðlabankans lækkar í 16% sem er fjórum prósentustigum lægra en í fyrra en það sama og fyrir tveimur árum.

Fyrir utan bankakerfið, sem nýtur aðeins trausts 7% aðspurðra, ber almenningur minnst traust til Alþingis og Fjármálaeftirlitsins, eða 10% og 12%. Traust almennings til Alþingis hefur minnkað verulega frá því í byrjun árs 2008 þegar 42% sögðust bera mikið traust til þingsins. Þá segjast aðeins 15% bera mikið traust til borgarstjórnar Reykjavíkur sem þýðir að traustið á borgarstjórninni hefur minnkað um 10 prósentustig á tveimur árum.

Sjá könnun Capacent í heild sinni.