Í samtali við Viðskiptablaðið segist Gísli Gíslason, stjórnarformaður Northern Light Energy, eiga von á því að fá um 300 rafbíla hingað til lands á næsta ári, en í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er fjallað um þróun rafbílavæðingar hér á landi og takmarkað notagildi þeirra utanbæjar.

Það verður þó ekki hjá því komist að spyrja Gísla út í digurbarkalegar yfirlýsingar um væntanlegan fjölda rafmagnsbíla hér á landi, en allt frá árinu 2009 hefur Gísli talað um að von sé á svo og svo miklum fjölda rafbíla hingað til lands, tölur sem oftar en ekki skipta hundruðum.

Í dag eru um 30 rafbílar á númerum í landinu. Aðspurður um þetta segir Gísli að erfiðlega hafi gengið að fá rafbíla til landsins þrátt fyrir vilja stjórnvalda til að lækka gjöld og álögur á bílana. Gísli segir það skýrast af því að Ísland sé örmarkaður auk þess sem hann segir að bílaumboðin hafi verið áhugalítil um að fá rafbíla til landsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.