Endurskoðendaráð telur sig að óbreyttum lögum ekki geta beitt harðari viðurlögum en aðfinnslum vegna brota gegn siðareglum. Tvö slík mál hafa verið til lykta leidd það sem af er ári. Ástæðan er sú að ráðið telur lagaákvæði þessa efnis ekki nógu skýrt til að uppfylla kröfur sem gerðar eru til skýrleika og fyrirsjáanleika refsiheimilda.

Ný lög um endurskoðendur og endurskoðun tóku gildi um síðustu áramót og fólu þau í sér ýmsar breytingar. Þar má nefna að skylduaðild að Félagi löggiltra endurskoðenda (FLE) var felld niður og ríkari kröfur voru gerðar til starfa þeirra en áður. Í upphaflegu frumvarpi var fyrirhugað að eftirlit með störfum endurskoðenda færðist frá endurskoðendaráði til Fjármálaeftirlitsins. Frá því var horfið þegar í ljós kom að ríkisstjórnin hugðist sameina eftirlitið Seðlabankanum. Var eftirlitið því áfram hjá endurskoðendaráði en skipan þess breytt.

Siðareglur FLE eru að meginstefnu til þýðing á siðareglum alþjóðasamtaka endurskoðenda (IFAC). Þær voru samþykktar á aðalfundi FLE fyrir rétt rúmum áratug og staðfestar af þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra í febrúar 2011. Síðan þá hafa þær ekki tekið breytingum en reglurnar ytra verið uppfærðar lítillega. Ljóst er að í sínum störfum hefur þorri endurskoðenda meginreglur þeirra í heiðri og er meðvitaður um inntak og efni þeirra.

Áminnt vegna brots gegn lögum

Það sem af er ári hefur endurskoðendaráð leitt til lykta tvö mál vegna kvartana um meint brot endurskoðenda. Í öðru þeirra var talið að endurskoðandi hefði brotið gegn ákvæðum laganna og siðareglum með því að hafa látið undir höfuð leggjast að snúa sér til fráfarandi endurskoðanda eftir að skipt var um endurskoðanda hjá félagi og með því að árita ársreikning félagsins þrátt fyrir að hafa ekki verið kjörinn til verksins. Í hinu málinu var komist að þeirri niðurstöðu að háttsemi hinna kærðu hefði á ýmsan hátt ekki verið í samræmi við góða endurskoðunarvenju og siðareglur. Atvik þau sem kvartað var undan í málunum áttu sér stað í gildistíð eldri laga um endurskoðendur en þá var sem fyrr segir kveðið á um skyldu til aðildar að FLE. Í eldri lögum var síðan skýrt kveðið á um að í störfum sínum skyldi endurskoðandi „fylgja siðareglum sem settar hafa verið af [FLE]“ en í nýju lögunum segir að endurskoðandi skuli „rækja störf sín í samræmi við góða endurskoðunarvenju og siðareglur endurskoðenda“.

„Í [nýju lögunum] er kveðið á um skyldu endurskoðenda til að hlíta siðareglum án þess þó að tilgreint sé við hvaða siðareglur sé þar átt. Í ljósi framangreinds telur endurskoðendaráð að lagastoð skorti varðandi heimildir ráðsins til að beita viðurlögum samkvæmt [lögunum] vegna atvika, sem rekja má til brota á siðareglum. Er það því niðurstaða ráðsins að beita ekki slíkum viðurlögum í tengslum við úrlausnir mála sem ráðinu berast og varða brot á siðareglum, að óbreyttum lögum,“ segir í ákvörðunum endurskoðendaráðs í fyrrnefndum tveimur málum.

Ekki ljóst hvaða siðareglur

„Í lögunum segir að endurskoðendur skuli starfa í samræmi við góða endurskoðunarvenju og siðareglur endurskoðenda. Aftur á móti kemur ekkert fram hvaða siðareglur það eru, hver sé bær til að setja þær eða hvar þær skuli birtar. Að mati ráðsins þá stóðst það ekki kröfur um skýrleika og fyrirsjáanleika refsiheimilda að beita viðurlögum vegna þess að óbreyttum lögum,“ segir Áslaug Árnadóttir, formaður endurskoðendaráðs.

Ráðið hafi af þessum sökum sent erindi til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, bent ráðuneytinu á þá stöðu sem uppi er og nauðsyn þess að gera breytingu á ákvæðum laganna um siðareglur. Ljóst sé að gera þurfi fleiri breytingar á nýju lögunum, til að mynda sé óljóst hver skuli hafa eftirlit með störfum endurskoðunarnefnda en ákvæði um þær er að finna í lögum um ársreikninga og reglugerð ESB nr. 537/2014 um sérstakar kröfur í tengslum við lögboðna endurskoðun á einingum sem tengjast almannahagsmunum. Hefur ráðið enn fremur bent ANR á það.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .