Íslandsbanki hagnaðist um 6,4 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi. Þetta er 200 milljónum minna en á sama tíma í fyrra. Á fyrri hluta ársins nam hagnaðurinn 14,7 milljörðum króna borið saman við 11,2 milljarða á fyrstu sex mánuðum síðasta árs.

Fram kemur í uppgjöri Íslandsbanka að hreinar vaxtatekjur námu 13,6 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Þar af námu þær 6,9 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi. Til samanburðar námu þær 14,5 milljörðum króna á fyrri hluta síðasta árs og 7,0 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi. Þá námu hreinar þóknanatekjur 2,8 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi sem var 100 milljónum króna meira en á sama tíma í fyrra.

Arðsemi eigin fjár Íslandsbanka eftir skatta var 14,5% á öðrum ársfjórðung borið saman við 17,4% í fyrra og 16,9% á fyrstu sex mánuðum ársins. Hún var 14,8% á fyrri hluta síðasta árs. Eiginfjárhlutfall Íslandsbanka var áfram sterkt eða 29,3% miðað við 30,3% á fyrsta ársfjórðungi og eiginfjár hlutfall A (Tier 1) var 26,1% miðað við 27,0% á fyrsta ársfjórðungi. Lækkunin sem skýrist að hluta af 2% hækkun áhættugrunns (RWA) í 674 milljarða.

Kostnaðarhlutfall bankans var 56,0% en var 58,8% á öðrum ársfjórðungi í fyrra. Lækkunina má rekja til til fækkunar starfsmanna og áframhaldandi kostnaðaraðhalds, að því er segir í uppgjörinu.