Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, segir undrast smæð aðgerðanna sem stjórnvöld kynntu í vikunni.

Fyrirfram bjóst ég við að styrkir og lán, sem myndu fyrst og fremst beinast að litlum fyrirtækjum, yrðu í aðalhlutverki og eru aðgerðirnar því í takti við væntingar,“ segir Erna Björg. Það sem kemur mér hins vegar á óvart er smæð aðgerðanna en samtals nemur umfang þeirra 43,5 milljörðum króna. Ég taldi að upphæðirnar yrðu hærri, lánskjörin önnur og að ríkisstjórnin myndi losa takið á pyngjunni meira. Þótt aðgerðirnar séu vissulega af hinu góða og jákvætt að sjá að stjórnvöld séu tilbúin að styðja við bakið á íslensku efnahagslífi þá verður að segjast að undirtónninn rímar við ummæli nokkurra ráðherra á undanförnum dögum og vikum: það á ekki að bjarga öllum.“

Erna Björg telur að hugmyndin að baki stuðningslánunum sé góð, að ríkið veiti lán í gegnum viðskiptabankana í þeim tilgangi að vinna gegn lausafjárvanda, vernda störf og milda efnahagssamdráttinn.

„Upphæðin er hins vegar slík að fyrir mörg fyrirtæki er hún eflaust aðeins dropi í hafið, sérstaklega ef ástandið ílengist. Fyrirfram taldi ég að upphæðin yrði hærri og mögulega sett í samhengi við rekstur hvers og eins fyrirtækis. Þá komu vaxtakjörin dálítið á óvart, en þau fylgja meginvöxtum Seðlabankans sem hafa staðið óhaggaðir í meira en mánuð þrátt fyrir hratt versnandi efnahagshorfur.“

Erna Björg segist hafa saknað þess á kynningarfundinum að lítið fór fyrir fyrri aðgerðapakkanum og þeim aðgerðum sem nú þegar eru í gildi.

„Ég hefði viljað sjá skýrari útlínur varðandi eina mikilvægustu aðgerðina til þessa, hlutabótaleiðina, en það úrræði stendur til boða út næsta mánuð.“

Hvað varðar efnahagshorfurnar þá vakti það athygli Ernu Bjargar að ríkisstjórnin miði við dekkri spá en hún hefði talið og dekkri en sviðsmyndir Seðlabankans.

„Í kynningarefninu kemur fram að ólíklegt sé að ferðaþjónustan nái sér á strik í bráð og samdrátturinn gæti orðið meiri og langvinnari en vonir standa til um. Það kemur því í sjálfu sér ekki á óvart að ríkisstjórnin ætli ekki að bjarga öllum ef útlitið er á þann veg að styðja þurfi heila atvinnugrein, sem stóð höllum fæti fyrir útbreiðslu veirunnar, í meira en ár. Að því sögðu þá er ég sammála þessari sýn ríkisstjórnarinnar, hraður bati verður sífellt ólíklegri, sérstaklega ef fram fer sem horfir og ferðatakmarkanir í einhverri mynd verða við lýði áfram.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér.