Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, segir skipan Ólafar Nordal innanríkisráðherra á nýjum starfshópi brjóta gegn jafnréttislögum þar sem aðeins einn karl sé í fimm manna hópnum. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu .

Hópurinn á að kanna hvernig jafna megi stöðu foreldra sem fara með sameiginlega forsjá barna. Kristín segir skipanina brjóta gegn 15. gr. jafnréttislaga þar sem skýrt komi fram að við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga beri að gæta þess að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða.

„Það er áhyggjuefni að þetta skuli gerast trekk í trekk án þess að nokkuð réttlæti það,“ segir Kristín og bætir við að ekki skipti máli þótt hópurinn nefnist starfshópur en ekki nefnd, ráð eða stjórn líkt og segir í lögunum.