Aðeins eitt prósent af opinberu rannsóknarfé atvinnuveganna rennur til rannsókna á sviði ferðaþjónustu. Í dag er upphæðin sem rennur til ferðaþjónustunnar um 100 milljónir á ári. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag. Þar segir jafnframt að til samanburðar nemi styrkir til rannsókna á fiskiðnaði, landbúnaði og orkuframleiðslu og -dreifingu milljörðum á hverju ári.

„Eitthvað í kringum 1% af öllu því fé sem rennur til rannsókna á atvinnuvegum fer í ferðamálin. Þar sem greinin er orðin okkar helsta leið til gjaldeyrisöflunar skýtur þetta skökku við," segir Edward H. Huijbens, forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála, í samtali við blaðið. Upphæðin sé í raun ótrúlega lág miðað við það sem aðrir atvinnuvegir fái.

Gjaldeyristekjur í ferðaþjónustu hafa aukist mikið síðustu árin eins og margoft hefur verið greint frá, og voru árið 2012 alls 238 milljarðar. Það gerir um fjórðung af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins. Ferðamönnum hefur fjölgað verulega á milli ára.