Þýskaland stefnir á að öll rafmagnsþörf íbúa verði fullnægt með endurnýjanlegum orkugjöfum fyrir árið 2035. Fyrri áform gerðu ráð fyrir því að hverfa frá jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2040. Þetta kemur fram í grein hjá Reuters fréttaveitunni.

Vestræn ríki hafa að undanförnu lagt þrýsting á Þýskaland að draga úr innflutningi á gasi frá Rússlandi. Robert Habeck, ráðherra í ríkisstjórn Olaf Scholz, segir að aukin framleiðsla endurnýjanlegrar orku verði lykillinn að því að gera landið minna háð eldsneyti frá Rússum.

Samkvæmt skýrslu sem þýska ríkisstjórnin birti í dag er stefnt að því að vind- og sólarorka nemi 80% af orkugjöfum landsins fyrir árið 2030. Christian Lindner, fjármálaráðherra, segir endurnýjanlega orkugjafa vera orku frelsis.