*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 8. apríl 2020 12:14

Aðeins forsetinn hækkar í sumar

Laun þjóðkjörinna fulltrúa, ráðuneytisstjóra auk seðlabankastjóra, varaseðlabankastjóra og ríkissáttasemjara hækkuðu um 6,3% um síðustu áramót.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Laun þjóðkjörinna fulltrúa, ráðuneytisstjóra auk seðlabankastjóra, varaseðlabankastjóra og  ríkissáttasemjara hækkuðu um 6,3% um síðustu áramót. Laun dómara og saksóknara höfðu hækkað um sömu prósentu í júlí á síðasta ári.

Uppfært: Eftir að fréttin birtist barst tilkynning frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu þess efnis að forseti Íslands hefði óskað eftir því að launabreyting hans yrði einnig fryst til næstu áramóta. Lagabreyting þess efnis hefur ekki verið samþykkt enn en viðbúið að það verði gert þegar þingið kemur saman að nýju.

Sagt var frá því á Vísi í dag að laun þingmanna, ráðherra, ráðuneytisstjóra og forseta Íslands hafi tekið hækkunum í upphafi árs. Kjör þeirra hópa höfðu ekki tekið breytingum frá árinu 2016 er kjararáð ákvarðaði þeim síðast laun. 

Eftir að lög um kjararáð voru felld brott árið 2018 var fest í lög nýtt launafyrirkomulag fyrir þá sem áður heyrðu undir ráðið. Hluti starfanna fékk rétt til þess að semja um kaup og kjör sín, stjórnendur stofnana færðust undir ákvörðunarvald skrifstofu kjara- og mannauðs í fjármálaráðuneytinu og síðasti hópurinn, þjóðkjörnir og æðstu embættismenn, tekur laun samkvæmt lögákveðinni tölu.

Laun síðastnefnda hópsins taka breytingum ár hvert í samræmi við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins á næstliðnu almanaksári. Skal sú breyting taka gildi þann 1. júlí ár hvert. Í fyrra var téðri breytingu slegið á frest vegna nýundirritaðra kjarasamninga. Var það gert með bráðabirgðaákvæði í lögum en samkvæmt því átti hækkunin ekki að taka gildi fyrr en 1. janúar 2020. Sú breyting gilti ekki fyrir dómara og handhafa ákæruvalds og tóku kjör þeirra því breytingum 1. júlí 2019. 

Hækkunin nú er því lögákveðin hækkun sem áður hafði verið slegið á frest. Í bandormi, sem nýverið var samþykktur á þingi til að bregðast við efnahagsáfalli vegna kórónaveirunnar, var lögákveðinni breytingu launanna frestað á nýjan leik. 

Það bráðabirgðaákvæði felur í sér að laun þingmanna, ráðherra, ráðuneytisstjóra, dómara, saksóknara, lögreglustjóra, ríkissáttasemjara, seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra munu ekki taka breytingum þann 1. júlí næstkomandi heldur 1. janúar 2021. Öðru máli, sjá 20. gr. bandormsins, gildir hins vegar um laun forseta Íslands en þau munu hækka í samræmi við hlutfallslega breytingu á reglulegum meðallaunum ríkisstarfsmanna samkvæmt tölum Hagstofunnar þar um.

Stikkorð: Kjararáð