Mikilvægt er að afnema gjaldeyrishöftin sem allra fyrst. En það verður mjög erfitt eða útilokað án aðkomu annarra, s.s. í gegnum aðild að Evrópusambandinu og með hjálp Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Án þeirra er verkið mjög erfitt, tæki langan tíma eða útilokað. Þetta segir Þórður Magnússon, stjórnarformaður Eyris Invest og margra nýsköpunarfyrirtækja.

Þórður var í viðtali í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Þar sagði hann m.a. að leitað væri að nýjum forstjóra Marorku utan landsteina. Það gangi erfiðlega þar sem gjaldeyrishöftin setji frekari hindranir í veginn fyrir erlenda stjórnendur sem íhugi að starfa hér á landi.

Ekki hægt án hjálpar

„Það liggur fyrir að við verðum að losna við gjaldeyrishöftin og það sem allra fyrst. Ég hef sagt það bæði opinberlega og annars staðar að eina raunhæfa leiðin til að afnema höftin sé að við gerumst aðilar að Evrópusambandinu og tökum upp evru. Þá er það sameiginlegt viðfangsefni okkar, Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að afnema þau. Ein og án aðkomu annarra er það mjög erfitt eða útilokað og tekur mjög langan tíma. Varðandi hugmyndir um einhliða upptöku annars gjaldmiðils, þá er niðurstaðan alls staðar sú sama, að sú leið sé einfaldlega óframkvæmanleg,“ segir Þórður Magnússon aðspurður um hvort hann sjái fyrir sér losun hafta á næstu misserum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.